139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

afskráning Össurar hf. í Kauphöll Íslands.

[14:08]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég bið hæstv. ráðherra að leggja mér ekki orð í munn. Ég var eingöngu að vísa til þess sem ég gerði ráð fyrir að yrði svar hans í ljósi þess hvernig hann hefur talað undanfarin ár.

Við hljótum að þurfa að velta því fyrir okkur hvernig bregðast á við ástandinu eins og það er. Þar vil ég sérstaklega leggja áherslu á mikilvægi þess að efla útflutningsgreinarnar sem hefði átt að vera hægt ef ekki hefði verið staðið í vegi fyrir allri mögulegri fjárfestingu í útflutningsgreinum sl. tvö ár. Er ekki orðið ljóst að hin einstæða þriggja þrepa aðferð ríkisstjórnarinnar við að vinna bug á kreppu, í fyrsta lagi að hækka skatta, í öðru lagi að viðhalda hæstu stýrivöxtum í heimi og í þriðja lagi að hræða burtu alla fjárfestingu, virkar ekki? Þarf ekki nýja nálgun? Má ekki segja að þriggja þrepa kerfið hafi einfaldlega ekki gengið upp í ljósi þess hversu lítil fjárfesting hefur verið undanfarin ár þrátt fyrir lágt gengi gjaldmiðilsins og núna nýjustu fréttirnar úr Kauphöllinni?