139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[14:11]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum í þessu ágæta landi okkar hvaða viðbrögð tillögur í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingar á sviði heilbrigðismála þýða og hafa í för með sér. Það liggur fyrir að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur boðað undanslátt frá þeim tillögum sem ríkisstjórnin lagði fram í byrjun október. Síðast fékk ég boð frá Vopnfirðingum um að mæta til fundar við okkar kl. 3.30 í dag þar sem þeir hafa lagt sig fleiri hundruð kílómetra ferð til að koma á framfæri mótmælum sínum við því að Sundabúð þar í bæ sé lokað. Hátt í 100 ára gamlar manneskjur koma þar fram fyrir alþjóð og mótmæla hreppaflutningum á þessari ágætu öld okkar.

Ég vil spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvað hann hyggst gera, hvernig hann hyggst bregðast við þeim mótmælum. Er það réttur skilningur hjá mér að þær tillögur til breytinga sem hæstv. ráðherra hefur boðað hafi stuðning innan ríkisstjórnarflokkanna beggja, svo það liggi þá fyrir hvort menn ætli að hræra í málum innan heilbrigðismálanna eða taka heildstætt á vandanum?

Það væri líka mjög ánægjulegt að fá svör ráðherra við þeirri spurningu hvort þær tillögur sem við væntum frá ráðuneyti hans taki til lengri tíma en eins árs, hvort við getum búist við því að tillögurnar sem fram koma taki mið af þeim veruleika sem við stöndum frammi fyrir og hefur verið samþykktur hér, að við þurfum að horfa fram á niðurskurð á fjárlögum næstu fjögur árin.