139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[14:15]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin um að enn liggi hvorki ljóst fyrir með hvaða hætti þetta verður unnið né heldur hvernig menn sjá fyrir sér fjármögnun í þessum þætti.

Það sem vekur mér hins vegar allnokkrar spurningar til viðbótar er það verklag sem við viðhöfum í þinginu. Þegar fjárlaganefndin er núna búin að fá frumvarp til fjárlaga næsta árs til efnislegrar meðferðar og umfjöllunar kallar hún til sín fulltrúa heilbrigðisstofnana og ræðir við þær en á meðan er ríkisstjórnin eða framkvæmdarvaldið að móta tillögur sem við fáum síðan í hendur, og væntanlega tiltölulega skamman frest, inn í fjárlaganefnd. Síðan á málið að koma til 2. umr. 7. desember. Forræði þingsins á fjárlagagerð, sérstaklega í þessum efnum, er í mínum huga sáralítið sem ekkert, því miður.