139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

flutningur málefna fatlaðra yfir til sveitarfélaga.

[14:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör. Hann fór vel yfir það hvar málið er statt og vonandi verður það afgreitt sem fyrst í þingflokkunum þannig að leggja megi það fram til að við getum nýtt tímann.

Ég hef hins vegar töluverðar áhyggjur af svari hæstv. ráðherra við síðasta lið spurningar minnar um stéttarfélagsaðildina. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér finnst einboðið að annaðhvort er bara málaflokkurinn fluttur allur í heilu lagi frá ríki til sveitarfélaga eða ekki. Menn eiga ekkert að vera að dvelja og dunda við svona hluti því að það er greinilegt að enginn ágreiningur er milli ríkisins og sveitarfélaganna um flutninginn á málaflokknum nema um það sem viðkemur stéttarfélagsaðildinni. Mér finnst, verð að viðurkenna það, að þetta mál sé farið að snúast um hvaða stéttarfélög fái greidd viðkomandi gjöld frekar en að menn einbeiti sér að því sem þetta á fyrst og fremst að snúast um, að gera málefni fatlaðra betri en þau eru í dag og hlúa frekar að þeim. Ég hvet hæstv. ráðherra til að ýta við hæstv. fjármálaráðherra þannig að það verði gengið (Forseti hringir.) í þetta mál og við getum nýtt þann tíma til undirbúnings sem nauðsynlegur er og hættum að velta smáhlutum fyrir okkur í svona stórum málum.