139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

endurskipulagning á sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.

[14:36]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Bætt og ábyrg nýting á almannafé er mjög mikilvæg um þessar mundir og nú sem aldrei fyrr. Því er rétt að huga að því í heilbrigðisþjónustunni eins og annars staðar en í heilbrigðisþjónustunni er það grundvallaratriði að þjónustan fari fram á réttu stigi. Þetta hafa nágrannaríki okkar haft að leiðarljósi í samspili heilsugæslu- og sérfræðilæknaþjónustu. Ég vil gjarnan taka Danmörku sem dæmi. Þar hafa verið skapaðir hagrænir hvatar og umhverfi þannig að einstaklingar sem kenna sér meins leita yfirleitt fyrst til heilsugæslulækna og fá úrbót meina sinna þar. Þeim sem eru haldnir sjúkdómum sem eru flóknari en svo að heilsugæslan geti veitt úrlausn er vísað til sérfræðilækna sem hentar. Á þennan hátt eru einstaklingar, má segja, sorteraðir á faglegan hátt og hinn hagræni hvati er þannig að sjúklingar sem leita til heilsugæslulæknanna borga ekki háar upphæðir en þeir sem leita beint til sérfræðilæknanna, fram hjá heilsugæslunni, borga mikið. Fari sjúklingur hins vegar fyrst til heilsugæslu og fær ekki endanlega úrlausn þar og er vísað til sérfræðilæknis borgar hann líka lítið hjá sérfræðilækninum. Það er því akkur í því fyrir sjúklinginn að leita alltaf fyrst til heilsugæslunnar og fá úrbót meina sinna þar eða tilvísun og borga þá lítið í framhaldinu hjá sérfræðilækni.

Hér er þessu öðruvísi farið, hér eru ekki nægjanlegir hagrænir hvatar í þjónustunni. Það er of lítill munur á verði til heilsugæslulækna og til sérfræðilækna. Í dag er almennt gjald hjá heilsugæslulækni 1.000 kr. Það er reyndar lægra fyrir börn, öryrkja og aldraða. Til sérfræðinga er hið almenna gjald um 3.800 kr. Það er þó lægra til aldraðra, barna og öryrkja. Þessi 3.800 kr. kostnaður sem er grunngjald til sérfræðilæknis segir bara hálfa söguna vegna þess að ríkið niðurgreiðir meginhluta reikningsins þannig að hlutur sjúklings er minni hluti reikningsins. Sjúklingurinn borgar kannski 30–40% af kostnaðinum en ríkið, þ.e. skattborgararnir, borgar restina, þ.e. 60–70%. Heildarkostnaður við sérfræðilæknahjálp á Íslandi á síðasta ári var 5,2 milljarðar kr. Þetta eru talsverðar upphæðir en við fáum líka góða þjónustu fyrir þá peninga.

Við erum á þennan hátt, með því að hafa of litla hagræna hvata, að nota hlutfallslega dýrari úrræði miðað við nágrannaþjóðir okkar, þ.e. sérfræðilæknaþjónustuna. Við notum þessi úrræði of mikið hlutfallslega miðað við ódýrari úrræði, þ.e. ef fólk leitaði í meira mæli til heilsugæslunnar.

Þó má segja að á landsbyggðinni ríki nokkurs konar tilvísanakerfi í dag, þar fer fólk í langflestum tilvikum til heilugæslulækna eða heimilislækna og í framhaldinu, ef sjúkdómurinn er alvarlegur, til sérfræðilækna. Í Danmörku, þar sem hið valfrjálsa stýrikerfi er komið á, nota yfir 90% Dana tilvísanahlutann, reyndar sagði fyrrum hæstv. heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, að það væru 98%. Hinir, sem eru þá 1,5–2% eða 10% eftir því hvaða tölur eru réttar í þessu sambandi, kjósa að leita beint til sérfræðilæknis sem er dýrari kostur. Þetta segir okkur að Danir a.m.k. nota kerfið mjög eðlilega, að mínu mati.

Ég geri mér grein fyrir því að sérfræðilæknar vilja helst ekki að við breytum núverandi kerfi. Það er hins vegar skylda okkar þingmanna að gæta að ábyrgri notkun á almannafé, á skattfénu. Með nýju kerfi, valfrjálsu tilvísanakerfi, mætti bæði stórbæta meðferð á almannafé og viðhalda góðri þjónustu fyrir sjúka. Þess vegna vil ég gjarnan spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort hann sé að vinna að þessum málum í ráðuneytinu. Ég veit að fyrrverandi ráðherrar voru byrjaðir á því. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Ef pólitískur vilji skapast fyrir því að fara í valfrjálst tilvísanakerfi, sem ég tel að við verðum að taka upp og eigum að taka upp til að bæta meðferð á almannafé, hvað gæti það tekið langan tíma? Það hafa verið nefnd 10 ár, 15 ár. Þá þarf að bæta við heimilislæknum, kannski 20–40 nýjum heimilislæknum, o.s.frv. Ýmsar tæknilegar hindranir eru á veginum. En ef það skapast pólitískur vilji, hvað telur hæstv. heilbrigðisráðherra að það taki (Forseti hringir.) langan tíma að koma hinu nýja og bætta kerfi á?