139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

endurskipulagning á sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.

[14:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Þetta er þarft mál sem við ræðum. Við ræðum hér kannski fyrst og síðast meðferð fjármuna ríkisins, fjármuna skattborgaranna. Við skulum samt líka átta okkur á því að tíminn er dýrmætur í þessum málum sem öðrum og hér er skipuð hver nefndin upp af annarri til að koma með tillögur um þetta eða hitt. Hér er ég t.d. með skýrslu nefndar um málefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem skilað er í desember 2008. Í forsvari fyrir þeirri vinnu var ágætur maður, Guðjón heitinn Magnússon. Skýrslan nær kannski akkúrat því sem við erum að ræða hér. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi er nýliðun meðal heilsugæslulækna ekki næg og það er mikilvægt að starfsumhverfi þeirra sé skoðað til þess að skoða megi hvernig laða megi að ungt fólk, sérstaklega unglækna, og þá að breyta þeirri þjónustu sem veitt er og þróun heilsugæslunnar til að falla að þeirra hugmyndum.“

Þá erum við að tala um að heilsugæslan verði alltaf fyrsti viðkomustaður sem hlýtur að vera skynsamlegast, ódýrast og best.

Í þessari skýrslu eru líka lagðar til margar mjög góðar og þarfar hugmyndir. Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins svaraði því til á fundi heilbrigðisnefndar í gær að ekki hefði verið sérstaklega horft til þessarar skýrslu, heldur tekið sitt lítið af hverju héðan og þaðan. En þar stendur m.a. að það þurfi að efla frekar frumkvæði og hugmyndaauðgi starfsmanna til að auka og stuðla að auknum afköstum í núverandi kerfi. Það mætti ná því með skipulagsbreytingum sem felast í því að hverjum íbúa á höfuðborgarsvæðinu fylgi tiltekið fjármagn til skráningar á valinni heilsugæslustöð og þess vegna gætu íbúarnir sjálfir valið (Forseti hringir.) hvert þeir vilja leita og hverjum þeir treysta best til að veita sér þjónustu miðað við það sem að þeim amar hverju sinni.

Frú forseti. Við eigum hverja skýrsluna á fætur annarri. Við hendum þeim (Forseti hringir.) fyrir róða og köllum eftir nýjum. Er ekki mál að fara betur með fjármunina í þessum efnum líka?