139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

endurskipulagning á sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.

[14:52]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu og hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Sú staðreynd sem við þurfum að hafa í huga þegar við erum að ræða þetta mál er að íslensk heilbrigðisþjónusta er framúrskarandi. Þegar við skoðum tölur sjáum við að á Íslandi erum við með eitt mesta langlífi í heimi. Við erum með hæsta hlutfall meðal OECD-ríkjanna varðandi fimm ára lifun hjá þeim sem greinast með brjóstakrabbamein. Dánartíðni nýbura er mjög lág og við erum líka með mjög hátt hlutfall lækna á íbúa. Þetta eru allt staðreyndir sem við framsóknarmenn erum mjög stoltir af, enda höfum við farið með stjórn heilbrigðismála mjög lengi hér á landi.

Hins vegar er staðan nú þannig að við þurfum að hagræða og spara í heilbrigðiskerfinu. Okkur framsóknarmönnum er þó mjög annt um að finna leiðir til að við getum viðhaldið þessum gæðum á heilbrigðisþjónustunni, að við getum áfram tryggt þjónustu á landsvísu og sparað á sama tíma. Til að gera það þurfum við að vera tilbúin að hugsa aðeins út fyrir kassann. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hefur ítrekað, ekki bara í þessari umræðu heldur ítrekað á þingi, bent á leið til að taka upp valfrjálst tilvísanakerfi að danskri fyrirmynd. Ráðherrann fór líka í gegnum það að til væru ýmsar útgáfur af svona valfrjálsu tilvísanakerfi. Eins og ráðherrann benti á er verið að skoða þetta en nú held ég að tími sé til kominn að við hættum að skoða hlutina og förum að taka ákvörðun um hvernig við ætlum að koma þessu í framkvæmd.

Það hefur líka verið bent á að það taki töluverðan tíma að fjölga heimilislæknum. Þar sem það virðist vera helsta hindrunin á innleiðingu á þessu kerfi mundi ég vilja benda ráðherranum á eina hugmynd sem ég hef nefnt áður í ræðustól, þ.e. hvort við getum ekki nýtt betur okkar vel menntuðu hjúkrunarfræðinga. Þeir gætu t.d. í auknum mæli tekið að sér að greina einfaldari sjúkdóma eða gefa út lyfseðla fyrir ákveðnar tegundir lyfja. (Forseti hringir.) Ég vil líka benda á fyrirkomulag eins og þekkist í Bandaríkjunum þar sem hjúkrunarfræðingar reka sjálfir heilsugæslustöðvar eftir að þeir eru búnir með ákveðna framhaldsmenntun sem auðveldar þeim að greina sjúkdóma og ávísa á lyf í framhaldinu af því.