139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

endurskipulagning á sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.

[14:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir, talaði um að við ættum að vinna þetta í rólegheitunum. Ef menn ætla að fara í þessa hluti, tilvísanakerfi, verður það bara gert í rólegheitunum. Lækningaforstjórinn upplýsti okkur í hv. heilbrigðisnefnd í morgun að það tæki á að giska 15 ár fyrir okkur að komast í tilvísanakerfi, (Gripið fram í.) 15 ár. Ég held að við ættum að koma okkur inn í nútímann og ræða um hvað við ætlum að gera núna.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði um það sem ég hef verið að spyrja eftir líka. Í október 2008 vissum við að við þyrftum að vinna mun hraðar að breytingum í heilbrigðisþjónustunni en við ætluðum. Ég bað um það strax og þing kom saman að við nefndarmenn fengjum öll þau gögn sem lágu fyrir ráðuneytinu til að fara sérstaklega yfir þau til að koma í veg fyrir þá stöðu sem núna er uppi í heilbrigðisþjónustunni. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór yfir skýrslu sem var unnin af fjölda manns, ekki bara heilbrigðisstarfsfólki heldur líka sveitarstjórnarmönnum, fólki af höfuðborgarsvæðinu og ýmsum öðrum sérfræðingum. Hún var unnin undir forustu Guðjóns Magnússonar heitins sem er sá okkar Íslendinga sem hefur náð hvað lengst í alþjóðlegum heilbrigðismálum. Það væri ágætt að fá að vita hjá hæstv. ráðherra hvað eigi að gera við þessi plögg. Það kom í ljós að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu er ekkert að gera með þetta, nákvæmlega ekki neitt, og þá eiga menn bara að koma með mótrök gegn því. Það var svo magnað að þegar menn ræddu við heilbrigðisstarfsfólk, sveitarstjórnarmenn og aðra voru allir mjög sammála um það hverju þeir vildu breyta.

Mér vinnst ekki tími til á 10 sekúndum að fara yfir það sem ég vildi en vil þó nefna það að við eigum ekki að tala um sérfræðiþjónustuna sem einhverja óvini okkar. Hún er mjög góð og reyndar ódýr í samanburði við það sem gerist í öðrum löndum. En aðalatriðið er, virðulegi forseti, að við höfum ekki tíma til að (Forseti hringir.) bíða í 10 eða 15 ár, við þurfum að horfa á heilsugæsluna strax. Ég hef áhuga á að heyra hjá hæstv. ráðherra hvað honum finnist um þessa vinnu. Ef hann er ósáttur við hana, hvers vegna er það?