139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

endurskipulagning á sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði.

[14:59]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að vekja máls á þessu umræðuefni sem er afar brýnt og mikilvægt. Að mínu viti er í því fyrirkomulagi sem við búum núna við, þ.e. að vera með óheftan og frjálsan aðgang að sérfræðingum úti í bæ, viss sóun á fjármunum. Það væri hægt að nýta fjármunina betur en til þess þurfa nokkur atriði að koma til.

Það er líka rétt sem hv. þm. Jónína Rós Guðmundsdóttir sagði áðan um að þetta kerfi, þ.e. nokkurs konar tilvísanakerfi, hefur lengi verið við lýði úti á landi og gefist ágætlega, raunar gefist vel í flestum tilfellum.

Það hefur verið komið inn á það í umræðunni að m.a. í Danmörku sé í gangi svokallað valfrjálst stýrikerfi. Það er einnig í mörgum fylkjum Bandaríkjanna, bæði þar sem er einhver vísir að almannaheilbrigðisþjónustu og einnig í þeim fylkjum þar sem fólk kaupir sér tryggingar. Ég get til að mynda upplýst hv. þingmann um það að þegar ég bjó í Bandaríkjunum tók ég þátt í slíku kerfi, það var aldrei neitt vandamál að þurfa að leita fyrst til heilsugæslunnar um þá þjónustu sem mann vantaði. Ég tel að valfrjálst stýrikerfi mundi stuðla að betri nýtingu fjármuna og auðvelda heilbrigðisyfirvöldum að gera áætlanir. Slíkt er alltaf mikilvægt, sérstaklega við þær aðstæður sem nú eru uppi í samfélaginu.

Hins vegar megum við ekki gleyma því að til þess að það gangi eftir þurfum við að setja mikinn kraft í að styrkja og bæta heilsugæsluna. Við þurfum að fjölga heilsugæslulæknum, líklega einhvers staðar á bilinu 20–30 bara hér á höfuðborgarsvæðinu. Áður en það er gert erum við líklega ekki í færum til að setja þetta kerfi á af fullum krafti. (Forseti hringir.) Mér finnst sjálfsagt að byrja og umræðan er af hinu góða.