139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[15:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegur forseti. Upp á síðkastið hafa okkur borist óljósar fréttir af því að tíðinda sé að vænta um mögulegt Icesave-samkomulag. Sömuleiðis hefur verið greint frá því að möguleg niðurstaða í þeim efnum hafi verið kynnt hagsmunaaðilum í landinu. Þess vegna er enn brýnna að þær upplýsingar sem kallað hefur verið eftir hér í þinginu og lúta að þessu máli verði reiddar fram.

Hv. þm. Pétur Blöndal lagði nokkrar fyrirspurnir fyrir hæstv. fjármálaráðherra um kostnað við ríkisábyrgð og áfallnar skuldbindingar vegna Icesave. Eins og fram hefur komið eru þau svör stórfurðuleg og í raun og veru alls ekki í samhengi við tilefnið, þ.e. fyrirspurnir hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Því hefur áður verið beint til hæstv. forseta að gerð verði gangskör að þessu máli og séð til þess að hæstv. ráðherra svari þeim fyrirspurnum sem fyrir hann eru lagðar. Auðvitað er það undir ráðherranum sjálfum komið með hvaða hætti hann umgengst fyrirspurnir af þessu tagi en það er þó lágmarkskrafa að hæstv. ráðherrar svari spurningum, sérstaklega þegar um er að ræða svona stórmál, sérstaklega í ljósi þess að tíðinda er að vænta (Forseti hringir.) og hæstv. ráðherra er nú að láta kynna þessi mál úti um þorpagrundir landsins án þess að hafa svarað grundvallarspurningum sem lúta að þessu máli sjálfu.