139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[15:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hér hafa talað. Ég vona að við þurfum ekki að koma hér upp sérstökum lið í störfum þingsins sem heitir „háttvirtir þingmenn þurfa að ganga eftir svörum við fyrirspurnum hjá hæstv. ráðherra“. Það er ekki aðeins um það að ræða að svörin komi seint og illa, heldur er oft og tíðum í þeim fullkominn útúrsnúningur í ofanálag og menn þurfa að leggja mikla vinnu í að fylgja þeim eftir.

Ég hef tekið nokkur dæmi hér við önnur tilefni, en þau dæmi sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson nefndi sýna betur en nokkuð annað mikilvægi þess að við fáum svör. Það er afskaplega mikilvægt, virðulegi forseti, að þeir sem stýra þinginu gangi nú fram og sjái til þess að þessir hlutir verði í lagi. Ef menn eru í fullri alvöru að tala um virðingu Alþingis, sjálfstæði Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, verða forustumenn þingsins, forseti (Forseti hringir.) þingsins, að ganga í þetta mál þannig að við getum eytt tíma okkar í eitthvað annað en að vekja athygli á jafnsjálfsögðum hlut og þessum.