139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[15:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég undirstrika sérstaklega svarið við síðustu spurningunni, þeirri sjöundu. Spurningin var þannig, með leyfi frú forseta:

„Hvers vegna var ekki minnst á ríkisábyrgð og áfallnar skuldbindingar vegna samninga og viðaukasamninga við bresk og hollensk yfirvöld, sem ráðherra hafði undirritað 19. október 2009, í fjárlögum fyrir árið 2010 og í fjáraukalögum fyrir árið 2009 sem samþykkt voru í árslok 2009?“

Þarna hafði fjármálaráðherra skrifað undir samning. Maður meinar yfirleitt eitthvað með því sem hann skrifar undir. Fjárlögum er ætlað að mæta væntanlegum útgjöldum og væntanlegum ábyrgðum sem ríkissjóður tekst á hendur. Það var ekki eitt einasta orð um þetta í fjárlagafrumvarpinu. Hér er sagt að það sé vegna þess að samþykki Alþingis lá ekki fyrir. Það lá fyrir frumvarp frá fjármálaráðherranum, ekkert að marka það. Hann hafði gert samning, ekkert að marka. Síðan er þetta frumvarp m.a.s. samþykkt fjórum, fimm dögum eftir að fjárlögin voru samþykkt. Þetta átti að sjálfsögðu (Forseti hringir.) að vera inni í fjárlögum og fjáraukalögum. (Forseti hringir.)