139. löggjafarþing — 26. fundur,  16. nóv. 2010.

fundarstjórn.

[15:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við fyrstu sýn gæti kannski einhverjum fundist einkennilegt að við séum að ræða þetta undir liðnum um fundarstjórn, en það er hins vegar þannig að við þingmenn höfum stjórnarskrárvarinn rétt til að spyrja ráðherra spurninga. Hins vegar höfum við stundum séð ráðherra leika sér að því að reyna að forðast að svara spurningum, maður þarf oft að passa sig mjög vandlega við það hvernig maður orðar spurningarnar upp á það hvers konar svör maður fær, eins og hæstv. forseti hefur svo sannarlega fengið að upplifa við þeim fyrirspurnum sem hún hefur borið fram í ræðustól.

Vegna þessarar stöðu taldi ég ástæðu til að leggja fram frumvarp um að bæta ákvæði við lög um ráðherraábyrgð þannig að það varði við ráðherraábyrgð þegar ráðherra gefur þingmönnum af ásetningi rangar upplýsingar við spurningum sem þingmenn bera fram eða rangar upplýsingar við meðferð máls við þingið. Það er mjög slæmt þegar vantraustið er orðið það mikið á milli þingmanna og ráðherra að við sjáum okkur ekki (Forseti hringir.) annað fært en að leggja fram frumvarp um að það varði við fangelsi að gefa okkur ekki rétt svör.