139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[15:19]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002. Með lögum nr. 44/2009 voru gerðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki varðandi slitameðferð þeirra. Breytingarnar fólu m.a. í sér að þegar ekki þætti sýnt fram á að eignir fjármálafyrirtækis mundu nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu mætti krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og væri að finna í XX. kafla laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Þá var einnig sett sérstakt bráðabirgðaákvæði varðandi fjármálafyrirtæki sem nytu greiðslustöðvunar við gildistöku laganna. Í ákvæðinu var m.a. tekið fram að þegar heimild fjármálafyrirtækis til greiðslustöðvunar félli niður færi fyrirtækið sjálfkrafa og án sérstaks dómsúrskurðar í slitameðferð eftir almennum reglum.

Þann 4. nóvember sl. voru kveðnir upp tveir samhljóða dómar af áfrýjunardómstóli í Frakklandi í málum sem snerust um kröfu Landsbankans til að fá kyrrsetningar tiltekinna kröfuhafa felldar niður með vísan til 138. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sem kveður á um að kyrrsetning kröfuhafa í eign þrotamanns skuli falla sjálfkrafa niður við uppkvaðningu úrskurðar um töku bús hans til gjaldþrotaskipta. Niðurstöður dómanna byggðust í stuttu máli á því að annars vegar gilti ákvæði 138. gr. gjaldþrotaskiptalaga ekki í slitameðferðinni og hins vegar á því að sú ráðstöfun að hefja sjálfkrafa slitameðferð eftir lok greiðslustöðvunartíma stæðist ekki þar sem það ætti ávallt að vera á valdi stjórnvalda eða dómstóla að taka ákvörðun um slitameðferð fjármálafyrirtækja. Sú lögskýring byggir á skýringu á formskilyrðum tilskipunar Evrópusambandsins 2001/24/EB sem kveður skýrt á um að ávallt skuli vera tekin sjálfstæð ákvörðun um upphaf slitameðferðar fjármálafyrirtækja.

Af niðurstöðum þessara dóma má draga þá ályktun að ákveðin réttaróvissa kunni að vera fyrir hendi varðandi upphaf slitameðferðar fjármálafyrirtækja eftir almennum reglum og að tilvísun til riftunarreglna laga um gjaldþrotaskipti sé ekki orðuð nægilega skýrt í gildandi lögum.

Verulegir hagsmunir eru í húfi fyrir þrotabú bankanna sem og kröfuhafa þeirra og því er nauðsynlegt að eyða öllum vafa um aðkomu dómstóla að slitameðferð fjármálafyrirtækja og tryggja að enginn vafi leiki á um að formskilyrðum tilskipunarinnar sem ég nefndi áður, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, sé fullnægt.

Í frumvarpi því sem hér er mælt fyrir eru því lagðar til breytingar á tveimur ákvæðum laga um fjármálafyrirtæki. Annars vegar er lagt til að breyta orðalagi 4. mgr. 103. gr. laganna í þeim tilgangi að taka af öll tvímæli um að öll ákvæði XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti gildi við slitameðferð fjármálafyrirtækja. Hins vegar er um að ræða breytingu sem felur í sér að fjármálafyrirtæki sem falla undir sérreglur bráðabirgðaákvæðis V við lögin verði með dómsúrskurði tekin til slitameðferðar sem almennar reglur gilda um í stað þess að slíkt gerist sjálfkrafa þegar heimild til greiðslustöðvunar rennur út. Úrskurður dómstóla um að taka fyrirtæki til slitameðferðar skal gilda og hafa réttaráhrif frá þeim degi þegar lög nr. 44/2009 öðluðust gildi, en einnig er tekið fram að frá því að beiðni um slitameðferð berst dómstólum og þar til endanlegur úrskurður hefur verið kveðinn upp skulu reglur um slitameðferð gilda til bráðabirgða um fyrirtækið.

Virðulegi forseti. Ég þakka þá góðu samstöðu sem tekist hefur í kjölfar samtala við formenn allra þingflokka um hraða og skjóta afgreiðslu þessa máls, enda umtalsverðir hagsmunir í húfi að hægt sé að greiða fljótt úr þeirri óvissu sem skapast hefur. Ég mælist því til þess að lokinni þessari umræðu að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar