139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[15:28]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir framsögu hans. Beðið er um að þetta frumvarp fái flýtimeðferð en það er lagt fram í kjölfar ábendinga skilanefnda og slitastjórna Landsbankans, Kaupþings og Glitnis vegna dóma sem voru kveðnir upp af afrýjunardómstóli í Frakklandi. Mér finnst þetta nokkuð bratt að komin sé inn í lagasetningu á Alþingi einhver niðurstaða sem áfrýjunardómstóll í Frakklandi hefur komist að en það var 4. nóvember 2010. Vissulega eru dómar Evrópudómstólsins ráðgefandi og fordæmisgefandi fyrir Íslendinga en kannski ekki einhverjir áfrýjunardómstólar í Evrópuríkjunum.

Það sem mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra út í er að hér er vísað í tilskipun 2001/24/EB, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, og hvort skilyrðum hennar sé fullnægt. Í tilskipuninni er talið felast mikið hagræði þegar um ræðir endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja sem hafa aðalstöðvar í einu aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og útibú í öðru aðildarríki. Því spyr ég: Eru allir þrír bankarnir sem hér eru undir og hagsmunir þeirra í húfi vegna þess að tilskipunin nær bara til útibús sem Landsbankinn rak í útibúakerfi sínu á meðan Glitnir og Kaupþing voru með dótturfélög? Gildir þetta bara um Landsbankann fyrst þarna er þetta ósamræmi?