139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[15:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins stendur að samkomulagi þingflokkanna um að greiða fyrir afgreiðslu þessa máls. Þetta mál virðist vera þannig vaxið að ekki verði undan því vikist að takast á við það og bregðast hratt við. Þetta er auðvitað ekki góð staða, þetta er ekki sú staða sem við hefðum kosið okkur, sérstaklega ekki í stóru máli eins og þessu þar sem undir eru gríðarlega miklir hagsmunir eins og marka má af orðum hæstv. ráðherra.

Þetta mál er líka flókið í eðli sínu eins og hefur komið hefur fram hér í orðaskiptum og þess vegna hefði verið æskilegt fyrir okkur öll að geta vandað málið og látið það hafa sinn eðlilega gang í gegnum þingið með umsögnum og umsagnarfresti o.s.frv. Þetta er hins vegar staðan og undan henni getum við ekki vikist og við verðum þess vegna eins og stundum áður að bregðast hratt við. Þetta eru líka óvanalegir tímar og óvanalegar aðstæður og slíkar aðstæður krefjast þess einfaldlega að vinnum málið með þeim afbrigðilega hætti sem við leggjum hér upp með.

Nú gengur þetta mál til viðskiptanefndar og viðskiptanefnd mun auðvitað reyna að varpa eins glöggu ljósi á málið og mögulegt er, væntanlega með komu gesta og yfirferð þeirra sem hafa verið að kynna sér málið í kjölfar úrskurðar þessa áfrýjunardómstóls í Frakklandi. Síðan kemur málið fyrir þingið að nýju og þá eigum við þess kost að taka efnislega afstöðu til þess. Ég vil láta það koma fram að þó að við greiðum fyrir því með þessum hætti að málið fái skjóta og góða afgreiðslu í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru og hæstv. ráðherra hefur gert ágætlega grein fyrir, erum við út af fyrir sig ekki að taka efnislega afstöðu til málsins. Það getum við ekki gert fyrr en við höfum haft tækifæri til að fara yfir það með eðlilegum hætti í viðskiptanefnd og málið kemur síðan þannig búið frá nefndinni inn í þingið.