139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[15:50]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerð sína fyrir málinu. Ég hef þegar gert ráðstafanir til þess að unnt sé að taka það á dagskrá á fundi sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í fyrramálið og ekki nema sjálfsagt að ganga eftir þeim upplýsingum sem ráðherra nefnir um heildarframleiðsluna. Einnig að skoða þættina sem hann nefnir um kostnað við eftirlitið.

Kræklingaeldi hefur verið spennandi sproti í íslensku atvinnulífi. Þar virðast vera tækifæri til matvælaframleiðslu og aukinnar útflutningsstarfsemi ef rétt er á haldið. Aðstæður eru hagfelldar og þess vegna fer vel á því að um þær sé settur sérstakur lagarammi.

Ég vildi nota tækifærið og spyrja hæstv. ráðherra um skilin í þessum verkefnum á milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins annars vegar og umhverfisyfirvalda hins vegar. Ekki síst vegna þess að málið kemur fram í aðdraganda þess að stofnað verður sérstakt auðlinda- og umhverfisráðuneyti. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið verður lagt niður en sett verður á stofn atvinnuvegaráðuneyti nú um áramótin eða þar um bil. Einnig vil ég spyrja um hlutverkaskiptinguna í því að ákveða svæðin og taka afstöðu til þeirra umhverfisáhrifa sem geta orðið af eldinu, hvort það ætti ekki að falla undir lögin um umhverfismat og sæta því ferli sem snýr að ræktuninni.