139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[15:52]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi athugasemd hv. þingmanns um að til standi að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið um áramót þá tel ég að hann þurfi ekki að hafa áhyggjur af því, held að verkefnin séu næg og annað sé brýnna en að fara að standa í svoleiðis rugli. Það verði skeldýraræktinni síst til framdráttar að framkvæma slíkt, enda er það ekkert að gerast með þeim hætti sem hv. þingmaður var þarna að ýja að.

Það má alveg velta fyrir sér hvar eru skil á milli skipulagsmála og matvælaeftirlitsmála. Þetta frumvarp er fyrst og fremst unnið út frá þeim skyldum sem lagðar eru á Matvælastofnun samkvæmt núgildandi matvælalögunum. Þetta er líka samkvæmt gildandi lögum um hlutverk Fiskistofu. Lagaumgjörðin um þetta er veik. Hún er hluti af lagaumgjörðinni sem lýtur að fiskeldi almennt sem, eins og ég benti á í ræðunni, fer ekki á allan hátt saman.

Ég hygg að nefndin fari vel ofan í þessi mál, hvort þetta skarist eða hvar þurfi að taka tillit til af hálfu skipulagslaga. Hlutverk ráðuneytisins er fyrst og fremst að leggja fram frumvarp út af þeim lögum og hlutverki þeirra stofnana sem þarna eiga hlut að máli.