139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[16:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Matvælastofnun setur sínar reglur og ákveður kostnað á bak við þær ákvarðanir. Mér finnst eðlilegt að hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fái Matvælastofnun á sinn fund og fari yfir þau atriði sem eru einmitt falin núna og eru hluti af hinni nýju matvælalöggjöf sem gerir tvímælalaust auknar kröfur, ekki aðeins til heilnæmis heldur líka eftirlits.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um eftirlit almennt, ég tala ekki um eftir að við fengum enn þá fleiri tilskipanir frá Brussel, að ekki hefur dregið úr skriffinnskunni hvað það varðar. En við stöndum frammi fyrir þessari staðreynd og verðum að aðlaga okkur að henni.

Ég ítreka að þetta er ung atvinnugrein og frumvarpinu er ætlað að taka á rammanum utan um greinina, ekki síst með tilliti til krafna um aukið matvælaeftirlit og matvælaöryggi. Ég treysti hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd til að fá öll þau sjónarmið og þau atriði sem þurfa að komast að við afgreiðslu málsins.