139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[16:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í orðaskiptum áðan sagði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að þær hugmyndir sem uppi eru um að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið væru tómt rugl og bar sig dálítið mannalega. Rifjast þá upp vísubrotið:

Og það er þó ávallt búningsbót

að bera sig karlmannlega.

Ég er ekki viss um að full innstæða sé fyrir þessu öllu saman því að við vitum alveg að það er einlægur ásetningur þessarar ríkisstjórnar að sameina sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið. Og ekki bara það, ætlunin er líka að gelda þetta sameinaða ráðuneyti. Hugmyndin er jafnframt sú að taka allt sem snýr að auðlindastýringu og auðlindanýtingu frá þessu nýja sameinaða ráðuneyti og setja undir umhverfisráðuneytið sem mun þá starfa í breyttri mynd.

Ég tók eftir því í haust, þegar fjallað var um þessi mál í tengslum við að verið var að búa til þetta nýja velferðarráðuneyti og innanríkisráðuneyti, að stjórnarliðar skrifuðu meirihlutaálit úr allsherjarnefnd og var engan bilbug á þeim að finna. Þar var einfaldlega sagt að þetta væri svona áfangi á aðeins lengri leið og ætlunin væri síðan að leggja næst til atlögu við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og iðnaðarráðuneytið og taka undan því alla auðlindanýtinguna og henda því inn í umhverfisráðuneytið, svo sérkennilegt sem það er allt saman. Mig rekur satt að segja ekki minni til að þar hafi verið neinir fyrirvarar þannig að ég vil segja við hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að nú sé komið að því að hann þurfi að reiða sig á stjórnarandstöðuna því að stuðninginn við þetta mál mun hann ekki finna í stjórnarliðinu, svo mikið er víst. Framtíð ráðuneytisins mun standa og falla með því að okkur takist að skrapa saman nægilegan stuðning úr stjórnarliðinu með okkur í stjórnarandstöðunni. Ég heyri á öllu að hæstv. ráðherra mun verða í þessum hópi og nú er spurning hvort hann vinni ekki með okkur á næstu vikum að því að tryggja pólitískan meiri hluta á Alþingi sem komi í veg fyrir fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar.

Ég er alveg sammála því að þær hugmyndir að steypa saman ráðuneytunum og jafnframt taka frá þeim sjálfa auðlindanýtinguna, eins og t.d. Veiðimálastofnun og Hafrannsóknastofnun, og setja inn í umhverfisráðuneytið er, eins og hæstv. ráðherra kallaði það, tómt rugl. Um það erum við alveg sammála, ég og hæstv. ráðherra. Ég ítreka að til að það takist örugglega að afstýra þessu rugli verður það ekki gert nema hann sæki sér stuðning úr stjórnarandstöðunni. Við verðum þá að tína einn og einn úr stjórnarliðinu svo að það nægi til að koma í veg fyrir ruglið.

Varðandi þetta frumvarp vil ég eins og aðrir fagna því að það er komið fram að nýju. Málið kom fyrir þingið á síðasta þingi og fór þá til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Ég held að almennt talað hafi málinu verið vel tekið og þarf engan að undra. Þegar forsagan er skoðuð byggir frumvarpið á skýrslu nefndar sem sá sem hér stendur skipaði. Að mínu mati var skýrslan ákveðið tímamótaverk varðandi starfsumhverfi skeldýraræktar.

Skeldýrarækt á sér talsverða sögu og hefur svo sem oft verið rædd í sölum Alþingis. Margir þingmenn hafa haft mikinn áhuga á henni. Ég nefni t.d. flutningsmann, hv. þm. þáverandi Karl V. Matthíasson, sem lagði fram þingsályktunartillögu í þá veru og mig minnir að hafi verið samþykkt. Æ síðan höfum við reynt að leggja til örlitla peninga til að efla þessa starfsemi hérlendis.

Það er hins vegar þannig að um þessa grein hafa verið skiptar skoðanir. Það eru ýmsir sem töldu að hvorki væru fjárhagslegar né efnahagslegar forsendur fyrir því að starfrækja skeldýrarækt hér á landi. Það er út af fyrir sig mál sem snýr fyrst og fremst að þeim sem vilja leggja fjármuni í atvinnugreinina en hlutverk ríkisins er að búa til alvörulöggjöf í kringum þá mikilvægu atvinnustarfsemi sem ég trúi að hún geti orðið. Það er auðvitað gert með því frumvarpi sem hér er lagt fram. Það er verið að búa til lagalega umgjörð í kringum skeldýrarækt, búa til hagfelldar aðstæður fyrir greinina svo að hún geti eflst og dafnað.

Sú skýrsla sem ég gerði að umtalsefni rétt í þessu fól í sér margvíslegar og skynsamlegar tillögur, en umfram allt var hún á vissan hátt niðurstaða um að skeldýrarækt ætti framtíð fyrir sér, að hún ætti möguleika. Farið var yfir þessi mál mjög rækilega af sérfróðu fólki, bæði úr atvinnugreininni sjálfri, úr vísindasamfélaginu og af fleiri aðilum. Niðurstaða þeirra var mjög á þá lund að þetta væri atvinnugrein sem ætti tvímælalaust að geta skapað okkur ný tækifæri og tekjumöguleika, styrkt hinar dreifðu byggðir og skotið fleiri stoðum undir atvinnulíf okkar. Þetta var að mínu mati mjög mikilvæg yfirlýsing vegna þess að hún byggði á rökum og gaf auðvitað vísbendingu um að skeldýrarækt væri atvinnustarfsemi sem við ættum að huga að í meira mæli.

Við höfum séð upp á síðkastið að sífellt fleiri einstaklingar vilja leggja fjármuni í atvinnugreinina. Það gera menn ekki nema hafa trú á því að þetta geti gengið upp. Ég er alveg sammála því að atvinnugreinar af þessu tagi þurfa stuðning hins opinbera og hann getum við veitt með ýmsum hætti en umfram allt þarf að knýja greinina áfram af sjálfsaflafé einstaklinga vegna þess að það er langlíklegast til að skila árangri. Ríkisvaldið getur síðan komið að með ýmsum hætti, t.d. með því að sinna vel vöktunarstarfsemi sem hefur verið gert upp á síðkastið — fyrir það tel ég eðlilegt að hið opinbera greiði. Þessi grein þarf auðvitað sem sprota- og nýsköpunargrein ákveðinn stuðning frá hinu opinbera en eftir það er nauðsynlegt að sleppa af henni takinu þannig að hún leiti sjálf nýrra möguleika á margvíslegum sviðum.

Í þessu samhengi var líka rætt um að skoða sérstaklega flutningsmöguleika, hvaða möguleikar væru á því að flytja afurðina til útlanda, aðstoða greinina við að komast að því hvað væri skynsamlegt í þeim efnum. Ég tek undir það. Ég held að það væri ekki bara þess virði, nauðsynlegt sé að gera það til að auðvelda mönnum að taka ákvarðanir.

Eitt af því sem ég tel að hafi hamlað starfsemi greinarinnar er, eins og ég hef skynjað af þeim kynnum sem ég hef haft af greininni, að menn geri sömu mistökin æ ofan í æ. Nýir aðilar reka sig á svipað og menn höfðu áður rekið sig á. Þess vegna var svo mikilvægt að stofna þennan samstarfsvettvang sem nefndarstarfið lagði grundvöllinn að til að menn geti lært hverjir af öðrum og komist hjá því að gera þessi kostnaðarsömu mistök.

Mjög mikilvægt er að skeldýrarækt sé stunduð sem víðast í kringum landið. Eitt af því sem getur verið háskalegt fyrir skeldýrarækt er ef upp koma sjúkdómar, nokkuð sem við þekkjum úr öðru eldi, því að þeir gera það að verkum ef skeldýraræktin er öll á einum stað að áhrifin á ræktunina verða nánast óafturkræf og sú uppbygging sem við viljum að eigi sér stað í atvinnugreininni.

Það er t.d. athyglisvert að þeir útlendingar sem ég hef hitt að máli, bæði Skotar og Kanadamenn, hafa lagt áherslu á þetta, að við reynum að tryggja það að þessi starfsemi fari sem víðast fram. Aðstæðurnar geta verið misjafnar. Ef einhvers staðar koma t.d. upp sjúkdómar er mjög mikilvægt að menn geti haldið áfram á öðrum stöðum. Náttúrufarslegar aðstæður kunna að breytast o.s.frv. og þess vegna er svo mikilvægt að það sé reynt að dreifa þessari starfsemi, eins og hefur gerst. Ég trúi því ef vel tekst til að þessi löggjöf geti skapað eða búið til betri ramma í kringum atvinnugreinina sjálfa þannig að hún eflist og dafni.

Eitt af því sem menn hafa kvartað undan í sambandi við starfsemi af þessu tagi eða hvers konar eldisstarfsemi, sem í sjálfu sér getur verið viðkvæm, er að þetta sé býsna flókið verkefni. Áður en menn fá tilraunaleyfi og ræktunarleyfi þurfa þeir að afla umsagna fjölmargra aðila. Varðandi ræktunarleyfin er t.d. gert ráð fyrir að Matvælastofnun gefi út leyfið en afla þurfi umsagnar hjá Fiskistofu, Hafrannsóknastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Siglingastofnun, viðkomandi sveitarfélagi og öðrum. Varðandi svæðaskiptinguna er talað um að leita þurfi m.a. umsagnar Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Landhelgisgæslunnar, Matvælastofnunar, Orkustofnunar, Siglingastofnunar, Umhverfisstofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar. Þetta er dálítið þunglamalegt en kannski verður ekki undan því vikist. Kannski þurfum við að hafa þetta svona vegna þess að það er umhverfislega nokkuð viðkvæmt mál og við þurfum að hafa vaðið fyrir neðan okkur. En við hljótum a.m.k. við vinnu okkar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd að velta því fyrir okkur hvort það sé með einhverjum hætti hægt að auðvelda þessa stjórnsýslu.

Þá kem ég að atriði sem ég vildi aðeins nefna í lok máls míns og var kannski tilefni til helstu umræðunnar um þetta mál þegar það var lagt fram fyrra sinnið á síðasta þingi og hæstv. ráðherra rekur örugglega minni til. Það var spurningin um hvar skipulagsvaldið ætti að liggja þegar kemur að þessu eldi. Spurningin er mjög áhugaverð og ég veit að þetta hefur til að mynda verið rætt á vettvangi umhverfisnefndar Alþingis í tengslum við endurskoðun og gerð nýrra skipulagslaga. Sú spurning sem hefur komið upp hjá m.a. sveitarstjórnarmönnum og ekki síst á vettvangi Fjórðungssambands Vestfirðinga er þessi: Er ekki eðlilegt að sveitarfélögin sjálf hafi meiri og beinni aðkomu að þessu máli og geti haft úrslitaáhrif um ákvarðanir? Í sem skemmstu máli og sinni einföldustu mynd blasir málið svona við sveitarfélögunum.

Áður fyrr var þetta mjög einfalt: Sjórinn var nýttur til fiskveiða. Flóknara var það ekki. Þá komu ekki upp þessi skipulagstengdu spursmál. Nú er þetta ekki alveg svona. Sjórinn er að sjálfsögðu fyrst og fremst nýttur til fiskveiða en þar fer líka fram eldi, það getur verið þorskeldi, laxeldi, kræklingaeldi og annars konar eldi. Síðan erum við með aðra strandveiðitengda starfsemi svo sem veiðar sjóstangaveiðibáta sem þurfa sitt rými og annars konar starfsemi líka sem kann að stangast á við aðrar ef menn hafa reglurnar ekki algerlega í lagi. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir okkur, óháð þessari atvinnustarfsemi, að ræða þetta m.a. í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd þótt skipulagsmálin heyri strangt til tekið undir aðra þingnefnd. Í ljósi þessa frumvarps verðum við að ræða þessar spurningar líka vegna þess að þær eru áleitnar, þær eru þegar á dagskrá og sveitarstjórnarmenn velta þeim mikið fyrir sér þessi dægrin. Aðstæðurnar varðandi nýtinguna sem ég lýsti í stuttu máli hafa breyst, við tölum stundum um landnýtingu en kannski getum við talað um sjávarnýtingu þegar við tölum um nýtingu á hafsvæðinu næst ströndinni.

Þetta vildi ég leggja til umræðunnar áður en málið færi til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Ég tel eðlilegt að við förum yfir þær umsagnir sem þegar hafa borist, við köllum eftir umsögnum ef umsagnaraðilar hafa áhuga á að bæta einhverju við eða ef nýir aðilar hafa áhuga á að koma að umsögnum um þetta mál.

Ég ítreka að ég tel nauðsynlegt að setja heildarlöggjöf um skeldýrarækt í ljósi þess að hún er að vaxa, hún hefur tækifæri eins og sýnt hefur verið fram á. Greinin hefur gengið í gegnum margs konar brambolt og erfiðleika eins og oft er þegar hrint er af stað nýrri atvinnustarfsemi. Við skulum ekki láta það letja okkur í að hafa trú á að þessi atvinnugrein eigi rétt á sér. Við sjáum nú þegar að menn hafa haslað sér völl á innanlandsmarkaði með afurðir skeldýraræktar. Kræklingur fæst núna bæði í verslunum á höfuðborgarsvæðinu og annars staðar. En stóru tækifærin munu að sjálfsögðu felast í útflutningnum sjálfum. Innanlandsmarkaðurinn getur verið ágætur til að byrja með til að byggja á en stóru tækifærin, ef þau eru til staðar á annað borð, liggja í útflutningnum.

Við þekkjum dæmi um skeldýrarækt til að mynda í Skotlandi, Írlandi, Kanada og oft hefur Prince Edwards-eyjan verið nefnt í því sambandi. Þar hefur hún sprungið út, jafnvel á hafsvæðum sem eru margfalt minni en þau sem við erum byrjuð að rækta á í litlum mæli í kringum okkar góða land. Hér virðast á margan hátt vera góðar aðstæður. Við vitum líka að ræktunin í Kanada t.d. hefur farið fram við náttúrufarslega erfiðar aðstæður. Þar hafa menn verið að glíma við lagnaðarís, þar hafa menn glímt við mjög miklar hitabreytingar á milli árstíma o.s.frv. Allt þetta segir okkur að menn hafa náð árangri í ræktun á skelfiski við mjög erfiðar náttúrufarslegar aðstæður og þess vegna er fullt tilefni til að ætla að við getum náð árangri líka, en ein forsenda fyrir því er auðvitað sú að búið sé til hagfellt umhverfi, m.a. með skynsamlegri löggjöf.