139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[16:22]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið sem var í raun árétting á því sem ég hafði verið að segja og ég veit að í þessum efnum erum við hæstv. ráðherra sammála. Það er eitt af því sem varð þess valdandi að ég ákvað að hrinda því verkefni af stað að fara rækilega ofan í forsendurnar fyrir kræklingaræktinni — það hafði verið um það ágreiningur og það skorti að mínu mati á að menn skoðuðu þessi mál til hlítar. Það er ekkert við því að búast að veikburða atvinnugrein, sem er að reyna að rísa á lappirnar, hafi möguleika á því að fara ofan í þessi mál. Ég lít þannig á að með því að vinna þessa vinnu væri verið að auðvelda mönnum að taka afstöðu til þess hvort menn gætu haldið áfram í þessu kræklingaeldi. Auðvitað er það þannig og á að vera þannig að menn taka síðan viðskiptalegar ákvarðanir sjálfir.

Ég tek mjög undir það sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan um mikilvægi þess að einstaklingarnir kæmu að þessu. Í þessum efnum, eins og annars staðar í atvinnulífinu, skiptir öllu máli að efla einkaframtakið. Nú heyrist mér við hæstv. ráðherra líka vera orðnir sammála um það.