139. löggjafarþing — 27. fundur,  16. nóv. 2010.

skeldýrarækt.

201. mál
[16:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og tek undir orð hans hvað það varðar að mikilvægast er að setja greininni þann lagaramma að hún geti vaxið og dafnað. Ekki endilega sem hraðast því að auðvitað skiptir miklu máli að þekkingin fylgi með. Það er alveg klárt frá minni hálfu og ég get fullyrt það fyrir hönd nefndarinnar að við munum ekki draga lappirnar í því. Það hefði hins vegar verið einfaldara ef búið væri að hugsa með hvaða hætti skipulagshlutinn kæmi að þessu máli.

Það verður þó að segjast að þetta er ekki einfalt mál. Umhverfisnefndin tók nýju skipulagslögin til umfjöllunar í sumar. Þar stendur í lögunum sem afgreidd voru í september, í 13. gr., að sé sótt um framkvæmdaleyfi á svæði sem er innan einnar sjómílu frá netalögum skal leyfisveitandi leita umsagnar viðkomandi sveitarfélaga áður en leyfið er veitt. Þarna er verið að ýja að því að svæðið sé ekki 100% land sveitarfélagsins. Engu að síður er það sveitarfélagið sem verður að fjalla um það. Ég hefði haldið að það hefði verið skýrara ef skipulagslögin hefðu tekið þannig á málinu. Við í nefndinni eigum nóg verkefni fyrir höndum og það verður spennandi að fást við þau.