139. löggjafarþing — 28. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[18:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvenns konar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Markmið breytinganna er að tryggja jafnræði kröfuhafa og að eignir fjármálafyrirtækja í slitum njóti verndar eftir að greiðslustöðvun lýkur.

Annars vegar er lagt til að gerðar verði breytingar á 4. mgr. 103. gr. laganna þannig að tekin verði af öll tvímæli um að allar greinar um riftun í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti eigi við um þegar ekki telst sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu.

Hins vegar er lagt til að gerð verði breyting á ákvæði til bráðabirgða V sem feli í sér að fjármálafyrirtæki sem falla undir sérreglur ákvæðisins verði með dómsúrskurði tekin til slitameðferðar sem um gilda almennar reglur í stað þess að slíkt gerist sjálfkrafa þegar heimild til greiðslustöðvunar hefur runnið sitt skeið á enda.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu á 2. gr. frumvarpsins:

Í stað orðsins ,,dómur“ í 6. málslið komi: héraðsdómur.

Undir nefndarálit meiri hluta viðskiptanefndar rita nafn sitt Lilja Mósesdóttir formaður, Arndís Soffía Sigurðardóttir, Magnús Orri Schram varaformaður, Skúli Helgason og Valgerður Bjarnadóttir.