139. löggjafarþing — 28. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[18:27]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram fengum við þingmenn stjórnarandstöðunnar að sjá þetta frumvarp klukkan þrjú eða fjögur í dag. Við höfum setið hér, þeir fulltrúar sem eru í hv. viðskiptanefnd, og farið yfir þetta mál með gestum, þ.e. fulltrúar frá skilanefndum stærstu föllnu bankanna og frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Við höfðum ekki tækifæri til að senda þetta mál til umsagnar. Ástæðan er sú að þeir sem tala fyrir þessu máli telja afskaplega mikilvægt að við klárum þetta hratt og vel vegna þess að hér eru miklir hagsmunir í húfi.

Hv. þm. Lilja Mósesdóttir og hæstv. ráðherra hafa farið yfir helstu ástæður þess og hafa fært rök fyrir því að mikilvægt sé að vinna þetta með þessum hætti. Við sjálfstæðismenn höfum hjálpað til við að frumvarpið geti farið hratt í gegnum þingið þó að við séum, held ég, öll sammála hér inni um að ekki sé skynsamlegt að vinna hlutina með þessum hætti, af augljósum ástæðum.

Ég tel að hv. viðskiptanefnd hafi, miðað við aðstæður, reynt að fara eins vel yfir þetta mál og kostur er. Við skulum vona að þannig hafi verið gengið fram að þetta muni ganga jafn vel og mögulegt er. Það verður hins vegar að segjast að það vakti athygli okkar að kveikjan að lagafrumvarpinu er dómur sem féll hjá áfrýjunardómstól í Frakklandi 4. nóvember. Núna er, ég held ég fari rétt með það, 16. sama mánaðar. Þrátt fyrir að við föllumst á þau rök að vinna þurfi hratt í málinu held ég að skynsamlegra hefði verið að kalla fyrr til þá aðila sem áttu að ganga frá því, það hefði örugglega orðið til þess að minnka líkurnar á því að eitthvað misfarist.

Miklir hagsmunir eru hins vegar undir. Við, fulltrúar sjálfstæðismanna í hv. viðskiptanefnd, höfum ekki skilað neinu nefndaráliti. Við fórum yfir þetta jafn vel og við töldum unnt á þessum örskamma tíma í nefndinni. Við höfum aðstoðað við að málið fari hratt í gegnum þingið en það er eðli máls samkvæmt á ábyrgð meiri hluta ríkisstjórnar og við munum sitja hjá í þeirri atkvæðagreiðslu sem hér er.

Við vonumst til þess að málin hafi gengið eins vel og mögulegt er en ég þarf ekki að hafa mörg orð um það að vinnubrögð eins og þessi bjóða ákveðinni hættu heim. Það er afskaplega mikilvægt að sú hætta verði ekki að veruleika í þessu máli, enda eru miklir fjármunir undir eins og hér hefur verið rætt. Við skulum vonast til þess að við þurfum ekki að ræða þetta mál neitt aftur á þessum vettvangi.