139. löggjafarþing — 28. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[18:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir hlý orð í okkar garð þangað til kom að síðustu setningunni. Það er alla vega öllum ljóst sem hér eru inni að ef einhver er ekki að flýta fyrir málsmeðferð þá er það hv. þm. Lilja Mósesdóttir. Ef menn vilja ræða hvað gerðist í aðdraganda hrunsins og hver sé þáttur hvers stjórnmálaafls í því, er sá sem hér stendur svo sannarlega tilbúinn í þá umræðu og hefur tekið hana nokkrum sinnum.

Ég held að allir sem líta á málið af sanngirni telji að það sé mjög hæpið hjá núverandi stjórnarflokkum að fría sig allri þeirri ábyrgð. Því síður held ég að hægt sé að finna því stað með nokkrum rökum að núverandi ríkisstjórnarflokkar hafi verið í forustu þegar að endurreisninni kemur. Við værum ekki í þessum endalausa vandræðagangi í þinginu ef sterk verkstjórn væri við þá vinnu. Það er nokkuð sem er freistandi að ræða en það er algjörlega undir hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans komið hvort það verður gert eða ekki. Ég lýsi mig fullkomlega reiðubúinn í þá umræðu hvar og hvenær sem er og meira að segja núna þó við séum að gera hvað við getum til að hjálpa ríkisstjórninni við að klára þetta mál.