139. löggjafarþing — 28. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[18:51]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem lýtur að því að greiða úr meintri réttaróvissu varðandi ákvæði íslenskra laga og samræmi þeirra við Evrópurétt. Þessu frumvarpi er ætlað að taka af öll tvímæli um það að fullt samræmi sé á milli íslenskra laga um slitameðferð fjármálafyrirtækja og tilskipunar Evrópusambandsins um endurskipulagningu og slit lánastofnana.

Undir liggja þeir hagsmunir að fullt jafnræði ríki milli kröfuhafa í slitameðferð fjármálafyrirtækjanna eins og hefur verið rauður þráður í því ferli hér á landi og ekki síður að eignir þeirra njóti áfram verndar gagnvart mögulegum kyrrsetningaraðgerðum kröfuhafa þegar heimild til greiðslustöðvunar rennur út sem stendur fyrir dyrum á næstu vikum.

Kveikja þessa máls er niðurstaða fransks áfrýjunardómstóls í máli sem Landsbanki Íslands höfðaði til að fá rift kyrrsetningu kröfuhafa gagnvart eignum bankans. Niðurstaða dómsins var í stuttu máli sú að íslensk löggjöf væri ekki nægilega skýr þegar kæmi annars vegar að tilvísun til riftunarreglna laga um gjaldþrotaskipti og hins vegar hvað varðar reglur um upphaf slitameðferðar fjármálafyrirtækja.

Nú er rétt að hafa í huga að þessu frumvarpi er ekki ætlað að vera einhvers konar inngrip í þetta dómsmál sem að sönnu er ekki lokið, því að það liggur fyrir að Landsbankinn mun áfrýja þessari niðurstöðu til hæstaréttar Frakklands, heldur einmitt að bregðast við þeirri réttaróvissu sem upp er komin með framtíðarhagsmuni slitastjórna og gömlu bankanna í huga.

Ég tel að sú leið sem farin er í frumvarpinu sé eðlilegt viðbragð við dómnum og skýri betur íslenska löggjöf og verji þar af leiðandi betur en gildandi lög eignir gömlu bankanna, þar með langtímahagsmuni íslensks almennings.