139. löggjafarþing — 28. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[18:53]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Sem varaformaður viðskiptanefndar vil ég þakka viðskiptanefnd fyrir skjót og góð vinnubrögð í dag. Mig langar að árétta í stuttu máli markmið þeirrar lagabreytingar sem hér er til umfjöllunar, að tryggja jafnræði kröfuhafa og að eignir bankanna föllnu njóti verndar eftir að greiðslustöðvun þeirra lýkur, í tilviki Glitnis og Kaupþings banka 24. nóvember nk., og í tilviki Landsbankans 5. desember eftir dóma sem féllu í Frakklandi. Þar komu fram röksemdir sem ollu áhyggjum og við erum hér að bregðast við þeim röksemdum. Markmið lagabreytingarinnar er að skýra að almenn slitameðferð hefjist með dómsúrskurði, þ.e. við eigum að skýra betur gildandi rétt og tryggja með því eignir Landsbankans eftir 5. desember. Það er að sjálfsögðu ekkert óeðlilegt að taka af öll tvímæli og skýra lög sem við erum að gera hér og nú.

Vegna þeirra orða sem hafa fallið í umræðunni vil ég árétta að að mínu mati eigum við á Alþingi að bregðast við ef vá stendur fyrir dyrum, það gerir ábyrgt stjórnvald sem vill taka ábyrgð á endurreisn.

Ég get tekið undir þau orð sem hér hafa fallið um að þetta séu ekki góðir lagasetningarhættir. Aðstæður eru hins vegar afar sérstakar og brýnt að bregðast skjótt við, sem ég tel að við höfum gert hér í dag, með skjótum og ábyrgum hætti. Það hefði farið betur ef öll viðskiptanefnd hefði staðið sameiginlega að málinu en svo er ekki. Ég ítreka orð mín: Hið ábyrga stjórnarafl tekur ábyrgð á endurreisn. Þess vegna er það mitt mat að þessi lög þurfi að verða að veruleika hér í kvöld.