139. löggjafarþing — 28. fundur,  16. nóv. 2010.

fjármálafyrirtæki.

212. mál
[18:55]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu þakka fyrir hana og þakka fyrir hversu vel hefur gengið að vinna þetta mál á vettvangi þingsins. Hér hefur nokkuð verið rætt um að þetta sé óæskilegur löggjafarháttur, þ.e. hversu brátt þetta mál hefur borið að. Ég held hins vegar að við verðum að átta okkur á því í ljósi þess lærdóms sem við höfum dregið af hruninu að við verðum að vera viðbúin því að grípa til aðgerða þegar ástæða er til. Við getum ekki ýtt því á undan okkur. Við verðum að hafa löggjafarferli sem tekur mið af þeim þörfum sem upp kunna að koma til að verja mikla og brýna hagsmuni.

Í þessu tilviki vorum við upplýst um dóm 8. nóvember. Í kjölfarið hófst yfirferð í ráðuneytinu sem stóð alla síðustu viku, m.a. með höfundum frumvarpsins sem varð að lögum nr. 44/2009. 12. nóvember, á föstudaginn var, var frumvarp tilbúið með kostnaðarumsögn úr fjármálaráðuneytinu og var lagt fyrir ríkisstjórn. Málið var rætt við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar í gær og kynnt þingflokkum stjórnarflokkanna og lagt fram hér í dag.

Ég er ekki alveg viss hvaða annan hátt hefði verið hægt að hafa á í ljósi þeirra hagsmuna sem um ræðir. Ég held að við getum ekki ætlað okkur í öllum málum fjölmargar vikur til umfjöllunar mála á þingi. Allt á sinn tíma og allt á sinn stað og sína stund. Ég tel að þegar um er að ræða mikla og stóra hagsmuni sem skipta máli út frá fjármálastöðugleika, eins og í þessu tilviki út frá miklum áhrifum á hagsmuni hinna föllnu banka og þar með óbeint auðvitað á hagsmuni ríkisins, þurfi löggjafinn að geta tekið skart á málum.

Ég vil að síðustu þakka nefndinni aftur fyrir vel unnin störf og þann góða hug sem þingið hefur sýnt með því að hraða þessu máli í gegnum þingið í dag.