139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina og fagna þó sérstaklega því sem hann sagði í lokin varðandi athugasemd fjármálaráðuneytisins við að ákveðinn tekjustofn fari þarna inn en ekki fyrst í ríkissjóð. Síðan ákveður Alþingi hver útgjöld viðkomandi stofnunar eiga að vera í raun og veru. Ég fagna því sérstaklega hvatningu hæstv. ráðherra um að beina því til hv. heilbrigðisnefndar þegar verður farið yfir málið.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga, annars vegar varðandi fullyrðingar um þá fjárhagslegu hagræðingu sem sameiningin mundi skila þegar fyrir liggur, eins og fram kemur í næstu línu á eftir, að ekki hefur verið gerð nein sérstök úttekt á samlegðaráhrifum stofnananna tveggja eða rekstraráætlun fyrir sameiginlegar stofnanir á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Finnst hæstv. ráðherra það ekki dálítið djúpt í árinni tekið að menn fullyrði að sameiningin muni verða til hagræðingar þegar þær áætlanir hafa ekki verið gerðar, sérstaklega í ljósi þess að í um 80% tilfella hafa stofnanir hafa verið sameinaðar og það hefur ekki skilað þeim árangri sem til var ætlast, einmitt vegna þeirra atriða sem ég nefni hér?

Í öðru lagi langar mig að tala um húsnæðismál viðkomandi stofnana. Fram kemur að þörf er fyrir 1.600 m² húsnæði og er búið að fara fram útboð á því. Síðan leggur heilbrigðisráðuneytið sjálft til að leigt verði mun stærra húsnæði á mun hærra verði sem þýðir í raun og veru 40% hærra tilboð en Framkvæmdasýslan mælti með. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra þó að það sé merkilegt hús sem heilbrigðisráðuneytið leggur til að starfsemin fari í: Eru þeir tímar ekki liðnir að við getum bruðlað svona með peninga?