139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:45]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. ráðherra hafi misskilið mig þegar ég var að tala um hvað það þýddi að tekjur stofnunarinnar færu fyrst til ríkisins og væri síðan útdeilt frá Alþingi. Ég var ekki að ræða um það hvort stofnunin gæti verið innan einhverra fjárlaga heldur finnst mér að allar sértekjur eða markaðar tekjur eigi fyrst að fara inn í ríkissjóð. Viðkomandi stofnun á síðan að vera á fjárlögum og á að fara eftir þeim og Alþingi á að ákveða það en ekki hafa einhverja fasta tekjustofna sem mjög vond reynsla er af.

Hæstv. ráðherra segir að það standi jafnvel til að einhverjir starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins falli undir þetta og þá vil ég spyrja: Hvernig stendur á því að það var þá ekki inni í því útboði sem fór fram?

Ég vil líka vekja athygli á því að það kemur fram í frumvarpinu að ekki eru nema 17 ár eftir af samningi landlæknisembættisins, 17 ár eftir af leigusamningnum. Hvað þýðir það? Það þýðir að ekki er vitað hvort endurleigja eigi þetta húsnæði. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, bara í ljósi stöðunnar sem við glímum við alla daga: Var það sérstaklega skoðað hvort möguleiki væri á — sú tækni sem er fyrir hendi í dag, samskiptatækni — að hafa þessar stofnanir í ákveðinn tíma, a.m.k. á meðan verið var að reyna að losna undan samningnum, hvora á sínum staðnum og nýta samlegðaráhrifin? Þó að búið sé að sameina yfirstjórnina þurfa ekki allir að vera í sama herbergi eða í sama húsi til að fjárhagsleg hagræðing náist.

Það stingur mig sérstaklega að þarna eigi að leigja nýtt hús, hugsanlega á 40% hærra verði en Framkvæmdasýsla ríkisins gerir ráð fyrir í útboðinu, líka töluvert stærra húsnæði og síðan eru 17 ár eftir af leigusamningnum og enginn veit hvað verður gert við það. Það hefur verið reynt að endurleigja það og enginn veit hvort það hefur tekist. Allir hér inni þekkja, eða alla vega flestir, hvernig ástandið er á leigumarkaðnum, það er frekar þannig að það vanti atvinnuhúsnæði. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Væri hægt að skoða sérstaklega hvort hægt væri að ná fram hagræðingaráformum með því að hafa stofnunina áfram á sama stað?