139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort ég get svarað andsvarinu en varðandi þetta með úttektina þá er það auðvitað unnið á þann veg að menn búa til þessa nýju stofnun. Það er svo sem nýbúið að ljúka þessari sameiningarvinnu, valið að skilja eftir ákveðna þætti sem hugsanlega ættu heima þarna með þó að ég geti ekki fjallað um þá í smáatriðum.

Varðandi það sem ég var að nefna, um aðra eftirlitsþætti, þá var það einfaldlega skoðað vegna þess að við erum að leggja saman þessi tvö ráðuneyti, hvort eftirlitsþættir sem hafa verið inni í félags- og tryggingamálaráðuneyti eigi heima í nýrri stofnun — það er fyrst og fremst verið að skoða eftirlitsþætti eins og í barnaverndarmálum og öðru slíku þar sem ráðuneytið fer með eftirlit jafnvel á sinni eigin framkvæmd sem er afar óheppilegt, fari hugsanlega þarna inn, plús alla upplýsingasöfnunina varðandi einstaka þætti í sambandi við bæði félags- og trygginga- og heilbrigðisráðuneyti. Við vitum öll að töluvert hefur skort á að upplýsingasöfnun sé samræmd og fullnægjandi fyrir ákvarðanatöku.

Ég get ekki svarað öðruvísi en að þegar menn buðu þetta út voru tilboð í ákveðið húsnæði. Menn voru að horfa til heilsuverndarstöðvarinnar og enn eru uppi áform um að nýta þá aðstöðu og jafnvel með Landspítalanum á móti. En þeim samningum er ekki lokið. Það verður að koma í ljós áður en gengið verður frá þeim samningum hvernig tilboðið verður endanlega eða hvernig uppleggið verður hvað varðar ferð og annað. En það skýrist þá væntanlega á meðan málið er í umfjöllun þingnefndar.