139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[19:56]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er komið fram frumvarp sem felur í sér sameiningu stofnana, þ.e. landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar. Sú er hér stendur er almennt frekar hlynnt sameiningu stofnana til að hagræða í rekstri, ég tel að á síðustu árum höfum við verið allt of viljug að stofna nýjar stofnanir og þurfum því að fara núna í talsverða hagræðingu og að sameina í ríkari mæli en við höfum gert. Ég tel að þetta eigi við um t.d. ýmsar sjúkrastofnanir sem erfitt var að sameina á fyrri tíð vegna andstöðu en ég tel að menn verði að líta á faglega þáttinn og sameina til að efla þjónustu. Ég er því svona almennt hlynnt sameiningum.

Það er eitt atriði sem ég staldra þó svolítið við í þessu frumvarpi og það er hinn svokallaði eftirlitsþáttur, þ.e. landlæknisembættið hefur víðtækar eftirlitsskyldur með heilbrigðisþjónustunni og starfsemi annarra stofnana. Það er umhugsunarvert að mínu mati að sameina Lýðheilsustöð og landlæknisembættið vegna eftirlitsþáttarins, þá er ekki beint eftirlit á lýðheilsustarfi okkar Íslendinga þar sem landlæknisembættið getur tæplega haft eftirlit með sjálfu sér ef svo má segja. Þetta tel ég vera atriði sem við þurfum að skoða sérstaklega í heilbrigðisnefnd og sjá hvort taka þurfi sérstaklega á þessu eða hvort því sé þannig háttað að starfsemi Lýðheilsustöðvar eða lýðheilsumálin séu svo frábrugðin öðru heilbrigðisstarfi í landinu að ekki þurfi að hafa neitt sérstakt eftirlit með þeim. Við þurfum að fara sérstaklega yfir það að mínu mati.

Á sínum tíma þegar Lýðheilsustöð var stofnuð árið 2003 kom það mál auðvitað inn í þingið og var unnið hér á faglegan hátt. Það er svolítið gaman að lesa um þá vinnu sem þá fór fram við að setja þessa stofnun eða stöð á laggirnar. Það var gert til að stórefla lýðheilsu í landinu, það var hugsunin að koma á fót sérstakri stofnun til að efla lýðheilsu í landinu. Þá komu alls konar athugasemdir við frumvarpið og ein laut einmitt að því sem ég er að fjalla um hér. Umsagnir um málið voru almennt jákvæðar en svona segir í athugasemdum við lagafrumvarpið — þetta voru umsagnir sem komu áður en frumvarpið var lagt fram:

„Nokkrir töldu þó að starfsemin væri betur komin hjá landlæknisembættinu, en einnig kom fram sú skoðun að slík starfsemi færi ekki vel saman við eftirlitshlutverk landlæknis.“

Þarna kom strax fram að gott væri að setja upp sérstaka stofnun af því að eftirlitshlutverk landlæknis væri brýnt og það væri ekki gott að hafa lýðheilsumálin alfarið hjá landlækni en við erum að taka það skref núna ef við samþykkjum þetta frumvarp. Þarna komu strax upp efasemdir um að landlæknisembættið ætti að vera með öll lýðheilsumál landsins undir.

Ég vil líka nefna að þegar Lýðheilsustöð var sett á laggirnar kom fram í nefndaráliti meiri hlutans á þeim tíma og ég ætla að fá að lesa þetta upp líka, með leyfi virðulegs forseta:

„Við umfjöllun málsins kom fram athugasemd um að eitt af hlutverkum Lýðheilsustöðvar um að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumótun á sviði lýðheilsu skaraðist við ráðgjafarhlutverk landlæknis. Meiri hlutinn sér hins vegar enga annmarka á því að þessir aðilar sinni ráðgjafarhlutverkum sínum samhliða heldur telur þvert á móti til bóta að tveir aðilar veiti ráðgjöf í stað eins áður.“

Þarna er fjallað um að það sé gott og sé til bóta að tveir aðilar sinni ráðgjöf í lýðheilsumálum, þ.e. bæði landlæknisembættið og Lýðheilsustöð. En nú ætlum við sem sagt að sameina þetta af því að nú er talið gott að þetta sé ein stofnun. Svona snúast röksemdafærslurnar algerlega við, virðulegi forseti. Í nefndaráliti minni hlutans á þeim tíma — og það er kannski gaman að rifja það upp að í þeim minni hluta voru virðulegur forseti Alþingis, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og hv. þm. Þuríður Backman. Þegar rætt var um Lýðheilsustöð þá og að koma henni á laggirnar hafði minni hlutinn verulegar athugasemdir við það mál, taldi að það væri illa undirbúið og ekki til þess fallið að hljóta samþykki, það væri óvarlegt að samþykkja frumvarpið, eins og sagði í nefndaráliti minni hlutans. Minni hlutinn var þó hlynntur hugmynd um stofnun Lýðheilsustöðvar en taldi málið illa undirbúið. Þá komu fram hugleiðingar um að samhengi hinnar nýju Lýðheilsustöðvar við aðrar stofnanir væri óljóst, sérstaklega við embætti landlæknis. Það má kannski segja að nú sé verið að hrökkva til baka eins og þessir hv. þingmenn ræddu um á sínum tíma, að hlutverkið væri óljóst, þeir töldu að endurskoða þyrfti lög um hlutverk landlæknis á þessum tíma og vildu frekar hafa lýðheilsumálin á einum stað á meðan meiri hlutinn vildi hafa þau á tveimur stöðum og taldi að það væri til bóta. Þetta var aðeins söguleg upprifjun, virðulegi forseti.

Varðandi málið sjálft eru færð rök fyrir því að hlutverk Lýðheilsustöðvar og landlæknisembættisins falli vel saman og það yrðu mikil samlegðaráhrif með sameiningu. Það er líka tiltekið að við stofnun Lýðheilsustöðvar árið 2003 fluttust ýmis verkefni tengd lýðheilsu á vegum embættis landlæknis til hinnar nýju stofnunar og í dag sinna báðar þessar stofnanir ráðgjöf um heilbrigðismál til stjórnvalda og almennings. Á sínum tíma var því verið að taka hlutverk frá embætti landlæknis yfir til Lýðheilsustöðvar og nú er, má segja, verið sé að skila því til baka. Það er eiginlega verið að setja allt til baka miðað við það sem áður var þó að verkefnin hafi að sjálfsögðu breyst með þróun og breytingum á lýðheilsu Íslendinga.

Í hinu nýja embætti blasa við margvísleg verkefni og þetta eru mjög spennandi verkefni. Það er tilgreint sérstaklega að lýðheilsustarf í nýrri stofnun, þ.e. ef við samþykkjum að stofna nýtt embætti landlæknis og lýðheilsu, muni fela í sér verkefni sem lúta að hreyfingu, mataræði, vaxandi offitu landsmanna, slysavarnir, tannvernd, geðvernd, sóttvarnir, kynheilbrigði, uppeldi og þroska barna, varnir gegn margs konar birtingarmyndum ofbeldis og forvarnastarf gegn notkun áfengis, tóbaks og annarra vímuefna, þannig að það er ekki lítið undir, virðulegur forseti.

Það er líka tilgreint á bls. 8 í frumvarpinu að hlutverk embættisins sé m.a að veita starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar á starfsheitum löggiltra heilbrigðisstétta. Ég vil nýta tækifærið til að koma því á framfæri að við höfum rætt þetta svolítið í heilbrigðisnefnd Alþingis varðandi löggiltar heilbrigðisstéttir. Þar hefur verið til umfjöllunar frumvarp sem gerði ráð fyrir því að þingið tæki að sér að löggilda heilbrigðisstéttir. Ég hef lýst yfir þeirri skoðun minni að ég hef gríðarlegar efasemdir um það. Ég tel að það mundi koma í veg fyrir að við tækjum inn nýjar löggiltar heilbrigðisstéttir sem ég tel alveg forsvaranlegt að gera þegar það á við vegna þróunar og meiri sérhæfingar í heilbrigðisþjónustu.

Það kemur líka fram í 6. gr. að í núgildandi lögum eru til ráð, fagráð sem á að leggja niður. Þau verða ekki lengur til en það verður hins vegar heimilt að starfrækja fagráð á einstökum sviðum innan embættisins. Þetta er allt frekar óskilgreint og það á greinilega eftir að vinna mikla vinnu varðandi það að koma þessari nýju stofnun í gagnið með þessum væntanlegu fagráðum. Þar er líka talað um lýðheilsusjóð og hann hefur komið til umræðu hér. Hlutverk sjóðsins er víkkað út í samræmi við nýjar faglegar áherslur. Ég tel að það geti verið til bóta að víkka það út og hafa það ekki eins niðurnjörvað, ef svo má segja, eins og nú er. Mér finnst þetta vera frekar spennandi hugsun.

Það er svo tilgreint í 10. gr. að öll störf hjá landlæknisembættinu og Lýðheilsustöð verði lögð niður 1. janúar 2011 en öllum starfsmönnum þessara stofnana verði boðin störf hjá hinu nýja embætti. Það er því tryggt að ekki þurfi að auglýsa þau störf sem þessir starfsmenn verða ráðnir í þannig að þeir geta verið rólegir.

Að lokum vil ég gera að umræðuefni kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins og hún kemur mér verulega á óvart. Hún er nokkuð löng og eiginlega ótrúlega löng miðað við tilefni máls. Við sjáum miklu styttri kostnaðarumsagnir um miklu stærri og alvarlegri mál en hér er á ferðinni og ég spyr mig: Af hverju er þessi kostnaðarumsögn svona löng og svona ítarleg á vissum sviðum? Það er alveg greinilegt að fjármálaráðuneytið er allpirrað út í þetta mál og gerir mjög mikið mál úr kostnaðarumsögn varðandi húsnæði, miklu meira en menn sjá yfirleitt. Það eru greinilega gríðarlegar deilur þarna á ferð. Það blasir við í þessari kostnaðarumsögn. Hér er ekki allt með felldu, virðulegi forseti.

Í fyrsta lagi er tiltekið að ekki hafi verið unnin sérstök úttekt á fjárhagslegum samlegðaráhrifum stofnananna, sem hefði verið eðlilegt að vinna. Heilbrigðisráðuneytið telur engu að síður ljóst að það verði talsverð hagræðing af sameiningu stofnananna og byggir það væntanlega á því að það er meginreglan oftast nær þegar fram í sækir að það verða samlegðaráhrif með sameiningu stofnana. Síðan kemur hins vegar þessi langloka í kostnaðarumsögninni um húsnæðismál og tveir hv. þingmenn gert það að sérstöku umtalsefni í andsvörum. Ég vil líka gera þetta að umtalsefni þó að ég hafi ekki langan tíma.

Það er svolítið skrýtið að lesa hér frá fjármálaráðuneytinu varðandi húsnæðismálin að auglýst hafi verið eftir húsnæði í maí fyrir hina nýju stofnun, reyndar löngu áður en búið var að samþykkja stofnunina. Það er svolítið sérstakt að auglýsa eftir nýju húsnæði og engin veit hvort stofnunin verður til, það er í höndum Alþingis að ákveða það. Hér hlaupa menn mjög hratt, virðulegi forseti, það var sem sagt auglýst í maí eftir nýju húsnæði. Gerð var húsrýmisáætlun sem Framkvæmdasýsla ríkisins vann í samráði við heilbrigðisráðuneytið. Það var sem sagt auglýst og auglýsingin byggðist á þessari húsrýmisáætlun og hún er væntanlega gerð í samráði við heilbrigðisráðuneytið, geri ég ráð fyrir. Ég trúi því ekki að Framkvæmdasýslan hafi bara auglýst þetta upp á sitt eindæmi. Ellefu tilboð bárust og Framkvæmdasýslu ríkisins var falið að fara yfir tilboðin. Niðurstaðan var sú að lagt var til að samið yrði við eigendur að húsnæði við Laugaveg 178. Það er 1.620 fermetrar og leiguverðið 1.500 kr. á fermetra, þ.e. 29 millj. kr. á ári, ársleigan. Þetta er allt tilgreint hér mjög nákvæmlega. Þetta gerir Framkvæmdasýsla ríkisins væntanlega í samráði við heilbrigðisráðuneytið. Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi.

En hvað gerist svo? Heilbrigðisráðuneytið óskaði hins vegar eftir því að ganga til samninga um hluta húsnæðis Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg. Þar er um að ræða 1.850 fermetra, leiguverð 1.850 kr. á fermetra, ársleiga upp á 41 millj. kr. eða um 41% hærra en það tilboð sem Framkvæmdasýslan mælti með. Ekki hefur fengist niðurstaða í viðræðum við eigendur Heilsuverndarstöðvarinnar að svo stöddu. Þetta er allt alveg gríðarlega nákvæmt. Hér dregur fjármálaráðuneytið fram að heilbrigðisráðuneytið fer með einhverjum hætti fer inn í það ferli sem var þá þegar búið að ákveða og óskar eftir því að ganga til samninga um hluta húsnæðis Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg. Ég vil því gjarnan spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra út í þetta því að ég hef ekki alveg náð rökunum á bak við þetta. Heilsuverndarstöðin gamla við Barónsstíg hefur auðvitað sterka ímynd heilbrigðis. Þar var heilbrigðisþjónusta í áratugi og mörgum finnst að þar verði að vera heilbrigðisþjónusta áfram og það er svo sem ósköp æskilegt. En það er talsvert dýrt að fara með stofnunina þarna inn og sérstaklega í ljósi þess að bæði er til ódýrara húsnæði annars staðar og ekki langt frá, af því að hér var nefnd staðsetningin. Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg er ekki langt frá Landspítalanum, hún er nálægt Landspítalanum, en Laugavegurinn er heldur ekki mjög langt í burtu. Eru þetta mjög sterk rök, virðulegi forseti?

Síðan er hér mikil langloka um hátt leiguverð á Seltjarnarnesi þar sem landlæknisembættið er núna. Þar var leigt af einkaaðila og það eru 17 ár eftir og þá þarf að koma því húsnæði í gagnið, hugsanlega á lægra verði svo ríkið tapar á þeim samningum í framhaldinu. Í lok kostnaðarumsagnarinnar er svo klykkt út með — þetta er á mörgum blaðsíðum — þar er enn á ný undirstrikað val heilbrigðisráðuneytisins á húsnæði. (Forseti hringir.) Það er því greinilegt að fjármálaráðuneytið er foxillt út í heilbrigðisráðuneytið miðað við þessa kostnaðarumsögn. Ég tel að ráðherrann verði að gera aðeins betur grein fyrir þessu en nú hefur verið gert.