139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

landlæknir og Lýðheilsustöð.

190. mál
[21:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins leiðrétta hæstv. ráðherra. Ekki hefur verið fylgt eftir heilsustefnunni sem var mörkuð og kynnt með pompi og pragt í nóvember 2008. Það er rétt að HOFF-verkefnið var tilbúið og farið af stað áður en heilsustefnan kom til. Ef hæstv. ráðherra ætlar að taka heilsustefnuna upp og fylgja henni eftir eru mikil verkefni þar sem þarf að vinna að. Ég hvet hæstv. ráðherra til að gera það og treysti því að hann geri það. Hann hefur haft orð um það og ef hann vill bæta í hana á hann bara að gera það. Því miður hefur norræna velferðarstjórnin ekki sinnt því og fyrirrennarar hans, hæstv. ráðherrar úr Vinstri grænum, hafa ekki sýnt þessu sjáanlegan áhuga.

Við þurfum líka betri rök fyrir því af hverju lyfjastofnanir og sóttvarnalæknir eru ekki í þessu. Stefán Ólafsson prófessor var einhverra hluta vegna fenginn í þetta sérverkefni og það hlýtur eitthvað að liggja eftir eftir þá vinnu sem við getum unnið úr því að við þurfum að fara faglega yfir þetta eins og nefnt hefur verið.

Í húsnæðiskostnaðinum erum við að tala um að það muni heilum 30 millj. kr. á því að fara þá leið sem heilbrigðisráðuneytið hefur lagt til að verði gert, og þá er miðað við hagstæðustu tilboð, 30 millj. kr. á ári. Þá erum við ekki farin að skoða hvert tapið er á því að greiða áfram þá háu leigu sem landlæknisembættið greiðir. Eins og ég nefndi áður er sérstakt rannsóknarefni að skoða hvernig sá samningur hefur verið gerður. Það er annað mál, það er langt síðan hann var gerður og það verður fróðlegt að vita til hve langs tíma hann var. Mér sýnist á öllu að hann hafi í það minnsta verið til 30 ára án uppsagnarheimilda og það er mjög sérstakt.