139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[21:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að beina spurningu til hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í framhaldi af ræðu hans. Honum varð tíðrætt í ræðu sinni um mikilvægi kostnaðargreiningar og mikilvægi þess að aðgerðir og heilbrigðisþjónusta almennt væri kostnaðargreind. Mig langar að spyrja hann hvort ekki sé hægt að kostnaðargreina og fara í slíkt á spítölunum nú þegar, eins og raunar hefur verið gert á Landspítalanum, án þess að það komi því eitthvað við hvort við frestum ákvæðum frumvarpsins sem hér er um að tala.

Það er í sjálfu sér bara af hinu góða að menn reyni að gera sér grein fyrir kostnaði en kostnaðargreining getur auðvitað farið fram án þess að við förum hina leiðina. Við getum í sjálfu sér hugsað okkur að sameina eða reka aftur saman Tryggingastofnun og Sjúkratryggingastofnun, jafnvel þótt við gerum kostnaðargreiningar. Það hefur ekkert með það að gera og hefur í rauninni ekkert sérstaklega mikið með pólitíska sýn að gera. Þetta er bara spurning um fjármálin.

Síðan er annað sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni sem er kannski vert að benda á, það er dæmið um augnaðgerðirnar. Augnaðgerðir, sérstaklega þær augnaðgerðir sem hv. þingmaður kom inn á, eru aðgerðir sem eru nánast hvergi í heiminum gerðar á spítölum. Þær eru nánast allar gerðar úti í bæ. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir einhverju sjálfkrafa áframhaldi, það verður ekki hægt að gera þetta í fleiri aðgerðaflokkum nema þá kannski í undantekningartilfellum. Þetta verður varla almenna reglan, a.m.k. ekki á meðan við rekum almannaheilbrigðiskerfi.