139. löggjafarþing — 29. fundur,  16. nóv. 2010.

sjúkratryggingar.

191. mál
[21:23]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þingmanni fyrir að taka þátt í umræðunni. Ég hvet hann til að gera það áfram og nýta þá þekkingu sem hann hefur til að miðla til flokksmanna sinna. Ég notaði augnsteinaaðgerðir sem dæmi, við getum farið yfir margt sem snýr að hinum einstöku aðgerðum. Ég notaði þær sem dæmi um að menn sömdu út frá forsendum verðs. Það er mjög stutt síðan þetta var gert með þessum hætti.

Sem ráðherra færði ég verkefni miskunnarlaust inn á opinbera spítala frá einkaaðilum ef það var hagstæðara. Fyrir mér var þetta bara mjög einfalt — að fá sem mest fyrir skattgreiðendurna og þá sem þurftu á þjónustunni að halda. Það er fullkomlega séríslenskt að spítali sé fremstur í röð hvað varðar kostnaðargreiningu. Þegar maður talaði við kollega sína í öðrum löndum var það alla jafna þannig að stofnun eins og Sjúkratryggingar hafði forgöngu um kostnaðargreiningu og ýtti á að stofnanir eins og þeirra landspítali færu í kostnaðargreiningu. Sem betur fer hefur Landspítalinn farið í kostnaðargreiningu almennt og það hefur nýst þeim vel eftir því sem ég best veit, og þykist nú vita, bæði í faglegri og fjárhagslegri stjórnun. Þetta er tilkomið vegna þess að þeir aðilar sem fóru með skattféð vildu fá sem mest fyrir það, líka í öðrum kerfum. Þeir fóru fram á kostnaðargreiningu og ýttu á um það. Hér á Íslandi hefur Landspítalinn án nokkurs vafa verið í algjörri forustu hvað þetta varðar.

Þetta snýst víst um pólitíska sýn, í það minnsta hér á Íslandi. Þess vegna hvet ég hv. þingmann til að miðla af reynslu sinni og kenna sínu fólki í Vinstri grænum. Ég vildi svo gjarnan að þetta væri ekki pólitískt deilumál en (Forseti hringir.) hv. þingmaður hefur meiri tök en ég á þeim flokki sem er hvað erfiðastur hvað þetta varðar og ég hvet hann til dáða.