139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mörgum þeim sem fjölluðu í fyrsta skipti um fjárlagafrumvarp í þinginu fyrir ári komu hinir svokölluðu safnliðir spánskt fyrir sjónir. Málefnanefndum þingsins er fengið það verkefni að deila fjármagni til ólíkra aðila sem hafa sent fjárlaganefnd erindi um styrki eða fjárstuðning úr ríkiskassanum. Ég sagði mig frá umfjöllun um þetta í heilbrigðisnefnd síðasta vetur þar eð ég taldi að ég hefði engin efnisleg rök til að deila út þessum takmörkuðu fjármunum. Það breyttist lítið sem ekkert þótt fulltrúar þeirra félaga sem áttu inni umsóknir mættu og útskýrðu mál sitt. Allir höfðu góðan málstað að tala fyrir en ég tel það eiga við um okkur öll í þessum sal að við höfum engin efnisleg rök til að skipta þessum fjármunum á milli margra verðugra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, núverandi hæstv. ráðherra Guðbjartur Hannesson, sagði um þetta efni í ræðu í desember í fyrra, með leyfi forseta:

„Fara þarf yfir allt þetta ferli við úthlutun styrkja til alls kyns verkefna og endurbæta það og endurskoða.“

Ég á ekki lengur sæti í neinni þeirra málefnanefnda sem fer með það hlutverk að deila og drottna í þessu tilliti, en eftir því sem mér heyrist tíðkast enn hið sama vinnulag og gerði fyrir ári. Ég spyr því formann fjárlaganefndar, hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur:

1. Er það rétt að engar breytingar hafi orðið hvað þetta varðar?

2. Hefur verið tekið saman hve há fjárhæð fellur í frumvarpi ársins í ár undir svokallaða safnliði?

3. Eru einhverjar áætlanir um að afnema þetta gamaldags fyrirgreiðslufyrirkomulag?