139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

störf þingsins.

[14:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Svo ekkert fari á milli mála þá vík ég nú að öðru máli.

Virðulegi forseti. Það er mikið rætt um virðingu og traust Alþingis, það er umræðan sem m.a. snýr að okkur alþingismönnum með beinum hætti. Margt hefur ósatt og ósanngjarnt verið sagt um störfin á Alþingi. Því miður á það líka við um sumt af því sem þingmenn hafa sagt úr þessum ræðustóli um þessi mál.

Í gær urðum við hins vegar vitni að máli sem er gott dæmi um hlut sem ég tel að ekki eigi að eiga sér stað á Alþingi. Um miðjan dag í gær var dreift til okkar þingmanna þingmáli frá ríkisstjórninni sem krafðist, að sögn ráðherra, hraðrar og afbrigðilegrar málsmeðferðar. Þjóðarhagsmunir, hvorki meira né minna, væru í húfi. Það er aldrei gott að stór mál séu afgreidd með leifturhraða í gegnum þingið, það sýnir reynslan okkur. En að sjálfsögðu vitum við líka að tilvik kunna að koma upp sem gera það að verkum að óhjákvæmilegt sé að bregðast hratt við og það sýndist mér eiga við um málið í gær. Við stjórnarandstæðingar brugðumst vel við þessu, málið fór á hraðferð í gegnum þingið. Við sáum þingmálið fyrst um kl. 3 í gær, það var komið til afgreiðslu í þinginu aftur rétt um kl. 6. En þá tók verra við.

Svo illa var mætt í þingsalinn að ekki var unnt að hefja atkvæðagreiðslu. Málið var borið fram af hálfu ríkisstjórnarinnar, stjórnarliðar á Alþingi eru 35, eingöngu 17 þeirra tóku þátt í atkvæðagreiðslunni, sem sagt innan við helmingur stjórnarliða. Hér var þó um að ræða stórmál sem varðaði gríðarlega þjóðarhagsmuni að sögn þess ráðherra sem málið bar fram.

Lítið skárra tók við í 3. umr. og við lokaafgreiðslu málsins. Þar gerðist það helst að lögð var fram breytingartillaga sem fól í sér að felld var úr gildi sú eina breytingartillaga sem þingið hafði samþykkt korteri fyrr. Í lokaafgreiðslu málsins tóku 19 þingmenn ríkisstjórnarflokkanna þátt. Málið var að sjálfsögðu borið upp og afgreitt á ábyrgð stjórnarsinna en það segir hörmulega sögu að rétt um helmingur þeirra sá sér fært að sinna málinu og ómaka sig til atkvæðagreiðslunnar sem að öllu eðlilegu hefði ekki átt að taka nema um það bil korter.

Ég ætla að spara stóryrði um þetta tilvik. Af þessu eigum við á hinn bóginn að læra og sjá til þess að slíkt gerist ekki aftur.