139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

safnliðir á fjárlögum -- vinnulag í nefndum -- ESB -- Icesave o.fl.

[14:32]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem talað hafa um gott samstarf í nefndum þingsins. Í gær náðist einstaklega gott samstarf í viðskiptanefnd um að keyra þjóðhagslega mikilvægt frumvarp hratt í gegn. Það á að tryggja jafnræði meðal kröfuhafa. Því miður hefur ekki enn komið frumvarp frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra til viðskiptanefndar sem tryggir jafnræði milli lántakenda og lánveitenda, að þeir 185 milljarðar kr. sem ofteknir eru af lántakendum fari aftur til þeirra.

Frú forseti. Í ljósi þessa býð ég sem formaður viðskiptanefndar fram krafta mína til að keyra frumvarp um vexti og verðtryggingu hratt í gegnum þingið. Það setur þak á vexti fasteignalána þannig að þeir verði bara um 3%. (VigH: Heyr, heyr.) (BirgJ: Heyr, heyr.) Lækkun vaxta í 3% mun lækka greiðslubyrði 73 þús. heimila, það mun koma 4 þús. heimilum úr vanda, lækka leigu hjá fjölda manns og þrýsta vöxtum almennt niður auk þess sem sú vaxtalækkun mun örva eftirspurnina í samfélaginu og auka skatttekjur ríkissjóðs. Kostnaðurinn af vaxtalækkuninni mun dreifast á 40 ár þannig að ekki á að þurfa að koma til lækkunar á lífeyri.

Frú forseti. Vextir umfram langtímahagvöxt fela í sér eignatilfærslu frá skuldsettum heimilum til fjármagnseigenda, þar með talið lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðirnir hafa (Forseti hringir.) tekið til sín mjög stóran hluta eigna þeirra sem núna eru á vinnumarkaði. (VigH: Rétt.)