139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

staða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

[15:01]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Við búum við erfiða stöðu í þjóðarbúskapnum. Skera þarf niður víðast hvar í stjórnkerfinu og eru löggæslumál því miður þar engin undantekning. Gerð er 5% niðurskurðarkrafa til embættisins en við vitum öll sem hér erum að víðast hvar er niðurskurðarkrafan miklu meiri.

Við búum við erfiða stöðu og að mínu mati er mikilvægt að skýr rammi fjárlaga standi, hann þarf að halda enda er það forsenda endurreisnar að við náum sjálfbærni í ríkisbúskapnum. Því skiptir það máli að laga útgjöld okkar að þeim tekjum sem við búum við. Þess vegna þurfum við því miður að skera niður í uppbyggingu löggæslumála.

Það er erfið staða hjá fjölmörgum opinberum starfsmönnum og álag sökum þessa niðurskurðar en þá kannski sérstaklega, eins og hér hefur komið fram, hjá lögreglumönnum enda búa þeir ekki bara við sparnaðinn heldur líka aukið álag í starfi sökum þess umróts sem er í samfélaginu.

Við þurfum víða að ganga hart fram eins og við þekkjum. Í því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir þarf að frysta ýmsar lífeyrisgreiðslur, það þarf að skera niður í viðkvæmri heilbrigðisþjónustu víða um land, enda er mikilvægt að skýr rammi fjárlaga haldi. Það er mikilvægt fyrir okkur að ná sjálfbærni enda erum við um þessar mundir að greiða 100 milljarða króna úr okkar sameiginlegu sjóðum í vaxtakostnað af því sem við skuldum. Við verðum bara að vona að framtíðin leiði það í ljós að ekki hafi verið hoggið of nærri grunnþjónustunni og þegar betur árar verði hægt að styrkja löggæsluna víða um land og hér á höfuðborgarsvæðinu og eftir standi sterkar, hagkvæmar stofnanir sem geti sinnt þjónustu sinni.