139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

staða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

[15:05]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Að ýmsu leyti er þetta mjög góð umræða fyrir íslensku lögregluna vegna þess hve jákvæð hún er frá hendi allra sem tekið hafa til máls. Menn gagnrýna síðan ríkisstjórnina og fjárveitingavaldið. Þá vil ég biðja menn um að hafa eitt í huga, að það sem við erum fyrst og fremst að hæla íslensku lögreglunni fyrir er framgangsmáti hennar við erfiðar aðstæður, hvernig henni hefur tekist að sýna stillingu og þar með styrk sinn. Við höfum orðið vitni að því hér við Alþingishúsið að settar hafa verið upp miklar járngrindur en lögreglunni hefur auðnast að skapa velvilja og tiltrú beggja vegna grindanna og það er afrek út af fyrir sig.

Það er þessi stilling sem við þurfum líka á að halda innan dyra, yfirvegun og stilling. Ætlar hæstv. ráðherra, spyrja menn, ekki að breyta stöðu mála? Það er eitt sem ég og ríkisstjórnin getum ekki breytt, það er að við búum við erfiða fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Úr því fáum við ekki bætt í einu vetfangi, þetta er staðreynd. (Gripið fram í: Forgangsraða.) Forgangsraða?

Spurt var hér áðan: Stendur til að færa landsdekkandi starfsemi, sem hefur verið á vegum ríkislögreglustjóra, annað og þess vegna út í umdæmin? Hvar eru þau áform? Ég hygg að þau séu stödd í skúffu á (Forseti hringir.) fréttastofu Ríkisútvarpsins eða í fréttamöppu einhvers staðar neðan til því að ég heyrði þessi áform þar en hef ekki heyrt á þau minnst síðustu vikur sem ég hef setið í dómsmálaráðuneytinu. (Forseti hringir.) Engin slík áform eru á prjónunum enda munum við ekki ráðast í skipulagsbreytingar hjá lögreglunni (Forseti hringir.) án samráðs við lögregluna sjálfa og fulltrúa starfsmanna Landssambands lögreglumanna.