139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:33]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við höfum lagt mat á þá áhættu sem er í þessu máli og teljum hana ásættanlega miðað við þá heildarhagsmuni sem í húfi eru. Við höfum auðvitað leitað eftir því við fjármálafyrirtækin að þau vinni eftir þessari meginreglu og ég vænti þess að mörg þeirra geri það og flest þeirra geri það. Við sjáum að Landsbankinn er þegar að bjóða lausnir varðandi umbreytingu á húsnæðislánunum í samræmi við það sem kveðið er á um í þessu frumvarpi og ég á von á því að aðrar fjármálastofnanir geri slíkt hið sama.

Þessi óvissa snýr eiginlega fyrst og fremst að húsnæðislánunum því að um þau hafa ekki gengið dómar. En við verðum líka að vega á móti almannahagsmunina af því að greiða hratt úr þessum málum og við þurfum líka að leggja mat á heildarhag. Hver og ein fjármálastofnun verður auðvitað að svara málum fyrir sig og út frá sínum þröngu sérhagsmunum. En það er hlutverk almannavaldsins að taka ákvarðanir út frá almannahagsmunum. Ég tel að út frá almannahagsmunum sé ekki fært að bíða með úrlausn á skuldavanda heimila með gengistryggð íbúðalán og bíða eftir að um þau gangi dómar í hverju og einu tilviki.