139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:36]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að tekinn er feill á ráðherra og forseta í dag.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir að yfir þetta þarf að fara vandlega í nefndinni. Fyrir liggur næmnigreining af hálfu Fjármálaeftirlitsins um það sem þarna liggur undir. Heildarfjárhæðin, eins og ég rakti í framsöguræðu, og heildaráhrifin af breytingunni eru 50 milljarðar sem heimilisskuldir munu lækka í kjölfar breytingarinnar. Við teljum að sú tapáhætta sem fjármálastofnanirnar þurfa að axla vegna gengistryggðu íbúðalánanna sé hverfandi og ég held að rétt sé að fara yfir það ítarlega í nefndinni á hverju það byggir. Það er líka rétt að nefndin fái öll þau fjölmörgu lögfræðiálit sem ráðuneytið hefur fengið um af hverju við teljum þetta fært.

Grundvallaratriðið er alltaf það að kröfuhafar verða að sanna ýmislegt annað en að þeir geti sýnt fram á fræðilega tapáhættu eða þeir geti sýnt fram á að eign hafi rýrnað á pappírnum. Þeir verða auðvitað að sýna fram á að það hafi verið raunverulegur valkostur hjá þeim að innheimta hana og fyrir því hafi verið jafnt viðskiptalegar og efnahagslegar forsendur.