139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:37]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra, að hann telji að það sé full ástæða til þess að sú nefnd sem mun fjalla um málið fái í hendur öll lögfræðiálitin og öll þau möt sem gerð hafa verið bæði varðandi þá fjárhagslegu áhættu sem í þessu frumvarpi kann að felast fyrir ríkissjóð og líka varðandi þann lagalega grundvöll sem frumvarpið byggir á.

Þó svo að við séum öll, hygg ég, í öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi þeirrar skoðunar að grípa þurfi til aðgerða út af gengistryggðu lánunum verðum við engu að síður að hafa vaðið fyrir neðan okkur, kynna okkur öll þau gögn sem fyrir liggja til að reyna að tryggja sem frekast er unnt að með samþykkt frumvarpsins sé ekki verið að baka ríkissjóði skaðabótaskyldu sem hægt væri að komast hjá.

Ég fagna því að hæstv. ráðherra vilji beita sér fyrir því að öll gögn málsins verði lögð fram og það er auðvitað forsenda þess að hægt sé að ræða málið og vinna það í sátt allra flokka.