139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hæstv. ráðherra um sjávarútvegsfyrirtækin bið ég hann að útskýra hvernig hann skilgreinir sjávarútvegsfyrirtæki. Eru það fyrirtæki sem eingöngu hafa tekjur í erlendri mynt eða sjávarútvegsfyrirtæki sem hafa tekjur í innlendri mynt?

Mig langar líka að biðja hæstv. ráðherra að fara yfir það sem kemur fram í frumvarpinu að fyrirtækin hafi verið með raunverulegar eða keyptar gengisvarnir. Mundi hann vilja útskýra fyrir mér hvað er nákvæmlega átt þarna við?

Að lokum langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um það sem kemur fram í frumvarpinu. Þessir 50 milljarðar sem fella þarf niður hjá einstaklingum, í heildina eru þetta 108 milljarðar og þar af eru 58 milljarðar sem falla af fyrirtækjum. Ef hæstv. ráðherra vildi útskýra fyrir mér eða upplýsa mig hvaða fyrirtæki er átt við með þessum 58 milljarða niðurfellingum.