139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[15:49]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fyrir góða umfjöllun um frumvarpið sem hér er rætt og tekur á gengistryggðum lánum. Um er að ræða breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Helga Hjörvar um nauðsyn þess að við þingmenn gerum allt sem við getum til þess að fólk með gengistryggð lán fái sem allra fyrst á hreint hvað það skuldar í raun og veru og að þessi skuldaskil taki ekki bara mið af hagsmunum lánveitenda, heldur líka af hagsmunum lántakenda.

Það hafa komið upp ýmsar efasemdir um að þetta frumvarp tryggi það. Ég vil skýra hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra frá því að margir nefndarmenn í viðskiptanefnd hafa fengið tölvupósta frá fólki sem er í öngum sínum út af því hvernig fjármálastofnanir endurreikna lánin eftir dóm Hæstaréttar. Fólk gagnrýnir sérstaklega að vangreiddar afborganir séu vaxtareiknaðar. Það er skilningur sumra lögfræðinga að fjármálastofnanir eigi ekki rétt á því að vaxtareikna vangreiðslur vegna þess að þeirra eru mistökin en ekki lántakenda.

Ráðuneytisfólk hefur skýrt efnahags- og viðskiptanefnd frá því að fallið hafa dómar í Hæstarétti sem taka af allan vafa varðandi útreikning á vangreiddum afborgunum og að Hæstiréttur hafi í raun og veru talað skýrt um að það eigi að vaxtareikna þetta. Ég óska eftir að hv. efnahags- og skattanefnd skoði þetta atriði sérstaklega.

Ef við víkjum aftur að frumvarpinu þá er það í raun og veru að stoppa ferlið sem hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra hóf með því að hvetja einstaklinga með gengistryggð lán að leita réttar síns í dómskerfinu. Hæstv. fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra mátti vera ljóst að slík lausn á vanda hópsins yrði tímafrek og dýr. Ég hef frá upphafi gagnrýnt að sú leið skuli hafa verið farin.

Í ljósi þess að nú situr nýr einstaklingur í embætti hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þá vil ég vita hvort hæstv. ráðherra sé sammála mér að það hafi verið mistök að láta þennan hóp fara í gegnum dómskerfið eins og frumvarpið ber með sér. Farsælla hefði verið að flytja öll lánin yfir í Íbúðalánasjóð og leiðrétta þau þar. Ekki síst í ljósi þess að núna felst í því ákveðin hætta að ríkið verði skaðabótaskylt ef við samþykkjum frumvarpið. Hæstiréttur gæti túlkað frumvarpið þannig, þegar það er orðið að lögum, að gengið hafi verið á eignarrétt bankanna eða að eignir bankanna hafi verið teknar eignarnámi.

Ég er líka komin hingað upp til að gagnrýna rökstuðninginn fyrir því að frumvarpið nær bara yfir einstaklinga en ekki yfir lögaðila nema að því leytinu til að með frumvarpinu er lögaðilum og öðrum aðilum í atvinnurekstri heimilt að vera með gengistryggða lánasamninga. Það er ekki ætlunin að skýra réttaróvissuna sem er í gangi um það hvort lán lögaðila séu ólögleg eða ekki. Rökstuðningurinn í frumvarpinu fyrir því að lögaðilar eða aðilar í atvinnurekstri eru ekki með er að þessir aðilar eru með erlendar tekjur. Eins og við vitum flest þá fengu mörg þjónustufyrirtæki gengistryggð lán til að fjármagna fjárfestingar í húsnæði. Þessi þjónustufyrirtæki eru ekki með erlendar tekjur og eru oft á tíðum samansett af engu öðru en húsnæði og nokkrum störfum fyrir eigendur og starfsmenn. Í þessum fyrirtækjum starfa oft á tíðum margar konur. Þetta eru í flestum tilfellum lítil og meðalstór fyrirtæki. Það eru sögusagnir um að bankarnir hafi verið duglegir að neyða þessi litlu og meðalstóru fyrirtæki til þess að setja eignir að veði fyrir gengistryggðum lánum og að eignirnar hafa oft á tíðum verið húseignir eiganda fyrirtækjanna.

Ég mundi gjarnan vilja fá upplýsingar um það frá hæstv. ráðherra hvernig tryggja á að fólk sem er í slíkri stöðu, eða með veðskuld á húseign sinni vegna fyrirtækjaskulda, geti haldið húseigninni svo framarlega sem það er borgunarfært.

Ég vil líka lýsa yfir áhyggjum mínum af því að það á að gefa aðilum í atvinnurekstri tækifæri til þess eða leyfa þeim að vera með gengistryggð lán. Aðallega í ljósi þess að við erum ekki enn búin að afnema gjaldeyrishöftin og það að lögleiða gengistryggð lán eykur áhættuna af afnámi gjaldeyrishafta. Þetta á nú reyndar líka við um heimilin. Heimilin eru í miklum mæli með verðtryggð fasteignalán og afnám gjaldeyrishafta þýðir mikil áhætta fyrir þau. Það er reynsla flestra þjóða að afnám þeirra þýði gengislækkun og verðbólguskot, nema ef farin er sú leið að skattleggja útstreymið.

Ég sakna í frumvarpinu að ekki er tekið almennt á greiðslubyrði skulda heimilanna eða greiðslubyrði heimilanna og hefði viljað sjá breytingu við 3. gr. laganna þannig að þar yrði svohljóðandi setning: „að verðtryggt lánsfé skuli ekki bera hærri vexti en 2%“. Frumvarp um slíka breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu var áður lagt fram af flokksfélögum mínum, hæstv. dómsmálaráðherra Ögmundi Jónassyni, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóni Bjarnasyni og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur. Þau rökstuddu frumvarpið þannig að nauðsynlegt væri að taka verðtryggingu lána í heild sinni til endurskoðunar, en þar til slíkt hefur verið gert er mikilvægt að ná fram lagabreytingunni sem hér er lögð til sem lágmarksvernd fyrir lántakendur verðtryggðra lána.

Frú forseti. Ég tel að þessi rökstuðningur eigi meira við í dag en áður. Þess má jafnframt geta að nú er að störfum nefnd sem er að skoða hvernig hægt er að afnema verðtrygginguna. Nefndin starfar undir formennsku hv. þm. Eyglóar Harðardóttur. Ég á von á því að fljótlega komi, eða fyrir áramót, fram tillögur frá nefndinni um afnám verðtryggingar.

Frú forseti. Fram að þeim tíma tel ég brýnt að farið verði í lagabreytingu sem felur í sér þak á vexti verðtryggðra lána sem eru í flestum tilfellum fasteignalán. Það mundi örva eftirspurn í hagkerfinu og jafnframt þrýsta á vaxtalækkun, ekki bara hjá heimilunum heldur líka hjá fyrirtækjunum. Eins og ég hef áður sagt mundi slík vaxtalækkun koma niður á lífeyrissjóðunum, á 40 ára tímabili. Lífeyrissjóðirnir miða lífeyri við að þeir fái um 3,5% raunávöxtun á sínar fjárfestingar. Sú ávöxtunarkrafa er hærri en langtímahagvöxtur hefur verið þannig að okkur hefur tekist að byggja upp lífeyrissjóðakerfi sem er mun stærra en verg landsframleiðsla eða um 1.800 milljarðar á móti 1.600 milljörðum í verga landsframleiðslu. Það eru fáar þjóðir sem geta státað af jafnstórum sjóðum. Því má ekki gleyma að það er mjög dýrt að reka svona sjóði. Það kostar um 3 milljarða á ári. Það er líka auðvelt að tapa úr þessum sjóði. Það hafa komið fram upplýsingar um að tap lífeyrissjóðanna á útrásartímabilinu hafi verið um 400–600 milljarðar.

Flestar þjóðir í kringum okkur eru ekki bara með sjóðssöfnun heldur líka með gegnumstreymislífeyrissjóðskerfi. Ég tel nauðsynlegt að við tökum upp slíkt kerfi sem allra fyrst til þess m.a. að létta byrðunum af þeim sem eru á vinnumarkaði sem hafa ekki aðeins þurft að safna upp sjóði fyrir eigin lífeyri heldur líka upp sjóði fyrir þá sem taka lífeyri í dag. Þessar vinnandi kynslóðir eru á barmi gjaldþrots vegna forsendubrestsins sem varð eftir bankahrunið.

Frú forseti. Það er brýnt að við tökum á lífeyrissjóðakerfinu og ekki síst ávöxtunarkröfu þeirra og lækkum hana til þess að draga úr eignatilfærslunni sem hefur verið á undanförnum áratugum eða frá því fólk fór að greiða í lífeyrissjóði upp úr 1969 og hefur m.a. þýtt að það eru að verða til kynslóðir sem standa uppi eignalausar eftir fullt ævistarf.

Frú forseti. Þetta voru helstu hugleiðingar mínar um frumvarpið sem við ræðum. Það er von mín að við tökum jafnframt á þungri greiðslubyrði þeirra sem eru með verðtryggð lán og setjum þak á vexti verðtryggðra lána sambærilegt við frumvarp sem félagar mínir lögðu fram árið 2001. Auk þess er brýnt að taka á vanda þeirra sem eru með lítil og meðalstór fyrirtæki, annaðhvort með breytingum á þessu frumvarpi eða með öðrum aðgerðum, þannig að fólk njóti jafnræðis á við aðra sem tóku gengistryggð lán.