139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[17:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok 1. umr. þakka málefnalega og góða umræðu um þetta mál og þau jákvæðu viðbrögð sem það hefur hlotið. Ég ætla að reyna að fara yfir þau atriði sem beint hefur verið að mér í umræðunni.

Fyrst kemur það sem er afmörkun í lagafrumvarpinu: Hvað á að liggja hér undir? Af hverju eru bílalán þarna undir? spurði hv. þm. Pétur Blöndal. Svarið við því er ósköp einfaldlega það að um bílalánin hefur Hæstiréttur tjáð sig en eftir stendur að til að hægt sé að ganga frá uppgjörum með skilvirkum hætti þarf löggjöf, því að fyrirtækin geta ekki kosið ein og sér að láta aðila sem þegar hefur selt frá sér bíl njóta ávinningsins af frumvarpinu. Um það verðum við að taka ákvörðun í lögum sem og um uppgjörsreglur að öðru leyti.

Hér var rætt um réttarstöðu bænda. Almennt liggja lán sem bændur eru með vegna íbúðarhúsnæðis á bújörðum og falla undir vaxtabótaskilgreiningu þarna undir. Þegar um er að ræða lán sem eru til búrekstursins skiptir í sjálfu sér ekki máli hvort þau eru á eigin kennitölu viðkomandi bónda eða á kennitölu búsins ef búreksturinn er fyrirtæki, enda er í báðum tilvikum væntanlega um rekstrarlán að ræða. Þau koma þá bæði undir þau sérákvæði sem þegar er búið að setja í lög um meðferð skuldamála bænda og lántakenda og njóta aðgangs að embætti umboðsmanns skuldara, endurgjaldslausan aðgang sem þeim er tryggður þar í úrvinnslu skuldamála bænda.

Varðandi minni atvinnurekendur að öðru leyti er einfaldlega best að taka á skuldamálum þeirra í heild, horfa til þeirra eins og þau eru vaxin, óháð tilurð skuldanna, og meta stöðuna í hverju og einu tilviki. Út á það gengur það samkomulag sem við höfum þegar náð við hagsmunasamtök í atvinnulífi og við fjármálafyrirtækin í stórum dráttum.

Í máli hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar kom fram sá misskilningur að um væri að ræða dráttarvaxtareikning á vangreiðslum. Í frumvarpinu er mælt fyrir um vexti á greiðslum í báðar áttir en engir dráttarvextir eru reiknaðir, það er beinlínis komið í veg fyrir að fyrirtækin, sem að öðrum kosti ættu að geta reiknað sér dráttarvexti, geti það. Vaxtaformúlan að öðru leyti er fundin út frá fordæmum Hæstaréttar og við teljum ekki mögulegt að víkja frá þeim, enda hefur Hæstiréttur tjáð sig með skýrum hætti að því leyti.

Sú spurning var sett fram af hálfu hv. þm. Lilju Mósesdóttur hvort óeðlilegt hefði verið að vísa meðferð þessara mála í dómskerfið og betra hefði verið að flytja öll gengistryggð íbúðalán yfir í Íbúðalánasjóð. Ég held að það hafi verið óhjákvæmilegt að fá úrlausn dómstóla um lögmæti gengistryggingarinnar og fá þann vegvísi sem frá Hæstarétti kom annars vegar 16. júní og svo 16. september. Hitt er svo aftur annað mál hvort til hefðu orðið einhverjir nýir peningar við flutning lánanna yfir í Íbúðalánasjóð. Hættan er sú að ef við hefðum flutt öll lán og þar á meðal gengistryggð lán yfir í Íbúðalánasjóð, eins og ég var kominn á fremsta hlunn með að leggja til í septemberlok í fyrra þegar ég gegndi embætti félagsmálaráðherra, hefðum við líka verið að ríkisvæða áhættuna af þessum lánum. Núna erum við þó að skilja hana eftir hjá þeim sem eru með þau á sínum bókum.

Spurningu var líka beint til mín um aðstæður fólks sem er með veð á eigin íbúðarhúsnæði vegna fyrirtækjaskulda. Eitt af þeim atriðum sem við hyggjumst taka á í samkomulaginu um meðferð skulda lítilla og meðalstórra fyrirtækja er að greiðslumetin verði staða ábyrgðarmanna sem að baki standa, þannig að við búum ekki til nýjan greiðsluvanda hjá heimilum smárra atvinnurekenda heldur leysum vandann í heild sinni. Þegar við tökum á skuldavanda lítils eða meðalstórs fyrirtækis verði jafnframt metin greiðslugeta ábyrgðarmanns og hann greiði í samræmi við greiðslugetu en ekki meira.

Nokkuð hefur verið rætt um þá stöðu að við gerum ráð fyrir að gengistryggð lán fyrirtækja verði heimil. Menn hafa velt hér upp ýmsum spurningum um það, hvort slíkt sé skynsamlegt og hvort ekki beri að takmarka það. Á meðan gjaldeyrishöftin vara eru auðvitað í gildi þær hömlur að fyrirtækjum er ekki leyft að taka gengistryggð lán nema þau séu með a.m.k. 80% tekna sinna í erlendum gjaldmiðli. Það eru hömlurnar sem eru í gildi í dag. Á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis eru í vinnslu hugmyndir um hömlur á möguleika sveitarfélaga til að taka lán í erlendum gjaldmiðli og ég held að það sé mjög skynsamlegt.

Hitt er svo annað mál að mér finnst við vera komin að grundvallarspurningu um framtíð íslensku krónunnar. Telja menn yfir höfuð að hún geti virkað án hafta? Ef menn telja að hún geti virkað án hafta og hún sé skynsamlegur framtíðargjaldmiðill fyrir þjóðina er líka alveg óhugsandi að setja einhverjar hömlur á það hverjir mega taka lán í íslenskum krónum almennt séð. Það er í sjálfu sér enginn eðlismunur á gengistryggðu láni og gengisláni þegar kemur að áhrifum þess á fjármálastöðugleika og áhrifum þess á gengi krónunnar, þar er fyrst og fremst um að ræða formið. Efnisákvörðunin, sem við þurfum einhvern tíma að fara að ræða í þessum sal og því fyrr því betra, er hvort það sé yfir höfuð hægt að sjá fyrir sér þær aðstæður að almenningur og fyrirtæki hafi fullt frelsi til að taka lán í erlendum gjaldmiðli. Er íslenska krónan það afl að við ætlum fólki það aftur að taka gengistryggð lán? Hvernig getum við vegið upp á móti þeirri hættu? Ein leið er auðvitað sú að auka áhættu banka af slíkum lánum, það er full ástæða til þess, en í grunninn munum við ekki geta bannað það.

Ég fékk í dag bréf frá Eftirlitsstofnun EFTA þar sem hún tilkynnir að borist hafi kvörtun vegna gengislánadómanna og veltir upp þeirri spurningu hvort bann við gengistryggðum lánum samrýmist EES-samningnum. Ég tel að svarið við því sé ósköp einfalt, að almennt fyrirkomulag þar sem við bönnum fólki að taka lán í erlendum gjaldmiðli gangi ekki. Það kann að vera unnt og ég held að rétt sé að gera þann greinarmun að hægt sé að viðhalda banni á að taka gengistryggð lán. En það er eins og ég segi enginn efnislegur eðlismunur, það er enginn munur á fjármálastöðugleika á gengistryggðu láni og gengisláni, og ef við ætlum að uppfylla skyldur okkar samkvæmt EES-samningnum getum við ekki bannað fólki að taka lán í erlendum gjaldmiðli. Þá erum við aftur komin að gömlu spurningunni, hvort við sjáum fyrir okkur sama óstöðugleikann og íslenska krónan skapaði á árunum í aðdraganda hrunsins þegar menn flúðu krónuna og vaxtastig hennar yfir í erlend kjör og skelltu skollaeyrum við hættunni af gengisáhættunni, jafnt fyrirtæki og einstaklingar. Og þá kemur sú spurning: Hvernig sjá menn þá fyrir sér — ef þeir sjá ekki fyrir sér að það sé umhverfi framtíðarinnar — hvernig sjá þeir sem mæra mjög tilvist íslensku krónunnar fyrir sér framtíð okkar sem þjóðar með þennan hörmulega gjaldmiðil? Mitt svar er alveg skýrt: Ég sé bara ekki fyrir mér íslensku krónuna sem burðarás fyrir íslenskt efnahagslíf til lengri tíma litið. Land í höftum kemst ekki úr höftum nema hafa alvörugjaldmiðil sem unnt er að skapa tiltrú á.

Aðeins var rætt hér hvort rétt væri að setja hámarksvexti. Ég held að það sé ekki raunsær kostur að setja þá með lögum, enda er það náttúrlega þannig að að baki íbúðalánunum liggja í mörgum tilvikum skuldbindingar og sérstaklega í tilviki Íbúðalánasjóðs hafa lánin verið veitt á grundvelli skuldabréfa sem aðrir aðilar eiga. Það er því búið að loka þeim hring og það verður ekki auðveldlega veittur afsláttur af þeim vöxtum nema á kostnað ríkisins.

Hér var velt upp möguleika sem hefur verið eitthvað í umræðunni, um mögulega skaðabótaábyrgð gagnvart lánþegum vegna þessa frumvarps. Ég tel að það sé afskaplega langsóttur möguleiki, enda er almenningi auðvitað í sjálfsvald sett að láta reyna á ríkari rétt sinn ef fólk telur að þessi réttur sé ekki fullnægjandi. Það eina sem hér er reynt að gera er að lesa í leiðsögn Hæstaréttar og veita henni almennt gildi og færa fólki þannig betri rétt en það ella hefði, en það er enginn réttur tekinn af fólki.

Varðandi fyrirtækin og meðferð þeirra mála er það hárrétt sem hv. þm. Ásbjörn Óttarsson rakti hér að það er hægt að horfa á aðstæður sjávarútvegsfyrirtækja frá mörgum hliðum. Það er kannski fullbratt að leggja málið þannig út að í greinargerðinni felist sú staðhæfing að ekkert sjávarútvegsfyrirtæki hafi orðið fyrir gengistjóni. Hins vegar eru mjög mörg sjávarútvegsfyrirtæki með tekjur í erlendum gjaldmiðli og þau hafa ekki orðið fyrir gengistjóni. Auðvitað er hægt að finna dæmi um hitt, að sjávarútvegsfyrirtæki hafi tekjur í íslenskum krónum fyrst og fremst og þau hafi orðið fyrir tjóni. Um þau verður þess vegna að gilda það sama og með öll önnur lítil og meðalstór fyrirtæki að þau eigi rétt á hraustlegri skuldameðhöndlun og skuldahreinsun sem ætlunin er að hrinda af stað núna og hefur dregist of lengi.

Af hverju hefur hún dregist of lengi? Ég held að hún hafi dregist of lengi vegna þess að bankarnir vissu ekki fyrr en í upphafi þessa árs hvaða grundvöll þeir hefðu til að taka á skuldamálunum og líka vegna þess að innan bankakerfisins var gríðarleg tregða til að byrja að skila svigrúminu til fyrirtækja í landinu. Það er ekki við löggjafann að sakast í því efni og ekki við ríkisstjórnina. Ég mælti fyrir frumvarpi fyrir rúmu ári, í október í fyrra, um sérstakar aðgerðir vegna gjaldeyrishrunsins. Þar var kveðið á um það grundvallarviðmið að miða skyldi skuldsetningu á fyrirtæki við virði þeirra, ekki meira heldur virði þeirra að hámarki. Síðan gengu hins vegar ýmsir bankar fram og reyndu alltaf að hengja meiri skuldsetningu á fyrirtækin en virði þeirra nam og það er auðvitað mjög ámælisvert. En nú loksins höfum við náð takti gagnvart fjármálafyrirtækjunum, þau eru tilbúin að horfast í augu við það núna að hér þarf að gera átak hratt. Ég held að þau sjái líka loksins að þau hafa heldur enga nýja kúnna til að lána, þau geta ekki lánað fyrirtækjum sem eru skuldsett upp fyrir rjáfur því að ekki geta þau fyrirtæki bætt á sig lánum. Það eru því hagsmunir allra að koma þessu hratt og örugglega í horf.

Markmiðið er, til að svara spurningu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar, að skila öllu því svigrúmi sem bankarnir hafa til fyrirtækjanna hratt. Það er markmiðið með aðgerðinni og ég hef lagt á það áherslu við forsvarsmenn fjármálafyrirtækjanna að það skipti meira máli að gera þetta hratt en að skoða hvert og eitt fyrirtæki. Þess vegna byggir aðferðafræðin á því að meta fyrir fram og setja grunnforsendur um virðismat fyrirtækja og síðan eigi að vera hægt að vinna verkefnið mjög hratt þannig að fyrirtækin fái strax tilboð um úrlausn sinna mála. Þess vegna hefur það líka verið hluti af þessari stefnumörkun að einfalda allar reglur í kringum þetta. Það er t.d. alveg ómögulegt að hafa svona kerfi ef öll 6 þúsund fyrirtækin sem þurfa að fara í gegnum svona ferli þurfa að hringja í lögmann sinn eða endurskoðanda til að fá að vita hvort þau lenda í skattskyldu á niðurfellingu á þeim skuldum sem verða felldar niður. Það er algjört grundvallaratriði að það liggi fyrir fyrir fram hver ramminn er þannig að allir geti mátað sig inn í hann með einföldum hætti hratt og örugglega.

Það er grundvallaratriði fyrir efnahagslega endurreisn að fyrirtækin fari að fá fast land undir fætur. Á meðan fyrirtækin vita ekki hvað þau skulda bæta þau ekki við sig fólki heldur hugsa frekar um að losa sig við fólk. Við eigum allt undir því að innanlandsfjárfesting vinni með okkur núna vegna þess að við getum ekki tryggt neitt hvað varðar erlenda fjárfestingu, sérstaklega ekki meðan Icesave er óklárað sem er auðvitað mikilvægasta verkefni okkar hvað varðar erlenda fjárfestingu eins og gleggst má sjá með ákvörðun stoðtækjafyrirtækisins Össurar nú að skrá sig úr íslensku Kauphöllinni. Það er algjört lykilatriði að leysa það mál ef við ætlum okkur að halda í alþjóðavætt atvinnulíf og laða erlenda fjárfestingu að landinu.

Aðferðafræðin sem er hugsuð í meðferð málanna gagnvart fyrirtækjunum er sú að fyrirtækin fái að sjá hvað þau fengju ef dómur félli þeim í vil miðað við gengislánadóma Hæstaréttar og svo sjái þau tilboð fjármálafyrirtækjanna. Við teljum að í langflestum tilvikum verði tilboðið sem í boði er fyrirtækjunum hagstæðara og betra þannig að þar með verði þá gengið frá málum. Fjármálafyrirtækin fá það auðvitað út úr þessu að vera örugg um að viðkomandi lán séu komin í skil og þau séu þá ekki í óvissuflokknum lengur. Báðir aðilar græða á því að semja með þessum hætti um úrlausn málsins frekar en að fara í langdregið dómstólaþras.

Að síðustu, vegna þess að spurt var hvort málið ætti að fara til viðskiptanefndar líka, held ég að það sé eðlilegt að efnahags- og skattanefnd meti það. Mörg dæmi eru fyrir því að nefndir leiti álits annarra nefnda og ef menn telja ástæðu til að leita álits viðskiptanefndar verður sá háttur hafður á. Að lokum þakka ég aftur fyrir góða og málefnalega umræðu.