139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[17:19]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að svara spurningunni beint þá tel ég ekki hættu á því. Það er ekkert í frumvarpinu sem breytir réttarstöðu fyrirtækjanna gagnvart því að bera fyrir sig óréttmæta lánasamninga. Hitt held ég að verði niðurstaðan að á borðinu verði annars vegar að halda til streitu ágreiningi sem fyrirtækið getur náttúrlega gert, það getur kosið að fara í mál, eða hins vegar að taka tilboði um fjárhagslega endurskipulagningu. Ég held að það sé augljóst að fjármálafyrirtæki býður ekki upp á fjárhagslega endurskipulagningu og fer í mál um gildi samninga á sama tíma. Ég held að menn verði að velja aðra hvora leiðina, auðvitað verða fyrirtækin að gera það. Ég er sannfærður um að miðað við þær tölur sem við höfum séð og verið að skoða úr fyrirtækjaflórunni að í þorra tilvika verði tilboðið sem byggir á verðmati á fyrirtækinu byggt á sjóðstreymi og framtíðarhorfum þess miðað við skuldsetningu að hámarki 100% af virði fyrirtækisins hagstæðara. Með þeim leiðum sem við erum að útfæra verði í upphafi greitt af 70% og svo hækki hlutfallið með ákveðnum hætti. Það er betri úrlausn fyrir fyrirtækið í öllum þorra tilvika en vera í óbreyttri stöðu miðað við að vinna mál um umbreytingu á gengistryggðu láni. En það er fyrirtækisins að meta í hverju tilviki. Tilboðið stæði á borðinu fyrir fyrirtækið að taka.