139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[17:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hugmyndina sem verið er að vinna með í ráðuneytinu og með Samtökum atvinnulífsins, ef ég veit rétt, og lánastofnunum. Það er m.a. það sem maður hefur séð í fréttum. Þá hefur líka verið talað um að það sé hámarksskuld viðkomandi fyrirtækis. Þetta gildi fyrir fyrirtæki sem skuldi ákveðna upphæð að hámarki sem væri skilgreining á lítil og meðalstór fyrirtæki. Ef það er inni í þessu ákvæði hámark, segjum bara 750 millj. eða 1 milljarður eða eitthvað svoleiðis, þá mundi fyrirtækið sem skuldar eitthvað yfir þessu hámarki hugsanlega geta lent í þeirri stöðu að fara ekki í þessa fjárhagslegu endurskipulagningu sem hæstv. ráðherra benti á. Ég get að mörgu leyti tekið undir að aðferðafræðin er skynsamlegt.

Þá getur viðkomandi fyrirtæki lent í því ef lánastofnunin kemst ekki í gegnum ferlið þá muni það sitja uppi með að geta ekki endurskipulagt sín mál með því að lengja í lánum eða eitthvað svoleiðis eða gefa út breytingu á gjaldmiðli sem gert er núna. Fyrirtæki gæti hugsanlega lent í þeirri stöðu að þurfa einmitt að falla frá kröfunni sem hæstv. ráðherra lýsti réttilega áðan, þú ferð ekki fyrst í endurskipulagningu. Eins og hæstv. ráðherra lýsti, þá munu menn taka tillit til þess sem er væntanlegt ef dómur mundi falla eða þar fram eftir götunum. Á sama tíma fer bankinn ekki að gera samning og síðan í málaferli við sama fyrirtækið. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra. Þess vegna langar mig að vita hvort hæstv. ráðherra geti upplýst mig eða þingið hvort það sé þak á þessu þannig að fyrirtækið gæti ekki lent í því. Ég ítreka spurninguna. Ef fyrirtækið mundi ekki lenda í þessum ramma, færi í fjárhagslega endurskipulagningu eftir að nýju lögin voru sett, gæti þá verið hugsanlegt, og væri ráðherrann ekki ósáttur við það, ef að lánastofnunin mundi pína viðkomandi fyrirtæki inn í einhverja leið og falla frá rétti sínum?