139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

vextir og verðtrygging o.fl.

206. mál
[17:30]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hræddur um að bankastjórar í Evrópu sem töpuðu helming af fjárfestingum sínum eða lánveitingum til íslenskra fyrirtækja verði ekki ginnkeyptir til að lána til Íslands næstu 10–15 árin, alveg sama hvað gerist með Icesave. Þeir hafa þurft að líða fyrir það, örugglega verið skammaðir aftur og aftur og einhverjir þeirra misst vinnuna.

Varðandi framtíðina þá er það þannig að skuldugur maður er alltaf ósjálfstæður og því ósjálfstæðari sem hann skuldar meira. Það sama á við um fyrirtæki. Það sama á við um sveitarfélög og ríkið. Það er ekkert náttúrulögmál að Íslendingar séu endalaust skuldugir. Ef við hefjum ráðdeild og sparsemi til vegs og virðingar og förum að eiga fyrir því sem við skuldum, nema kannski íbúðarhúsnæði og námsláni. Ég hef lagt til að þjóðin byrji að spara. Hún er reyndar hætt að kaupa sér bíla, flatskjái og annað slíkt að einhverju leyti vegna skatta hæstv. ráðherra en líka vegna þess að hún er búin að sjá að það er ekkert skynsamlegt að skulda svona undir drep. Ég hugsa að ef menn breyta þessari hegðun í svona 10–15 ár, þetta er langtímahlaup, þá getum við á endanum keypt okkur þann gjaldeyri sem við viljum nota. Ef Íslendingar eiga innstæðu í útlöndum munu þeir bara kaupa þann gjaldeyri sem þeir þurfa og flytja hann inn. Þá þurfa þeir hvorki að spyrja Evrópusambandið né kóng eða prest að því hvort þeir megi það eða ekki. Þá erum við búin að leysa vandamálið með krónuna. Ég hugsa að þegar við erum komin í þá stöðu verði krónan orðin gjaldgeng. Fyrst þurfum við að losa okkur við allar skuldirnar. Það eru þær sem pína okkur í þessum málum. Aðalvandi íslensku þjóðarinnar er gífurleg skuldsetning og það að við skulum tala niður til ráðdeildar og sparsemi og tala um fjármagnseigendur sem er ljótt orð sem einu sinni hét sparifjáreigandi eða sparandi eða maður sem frestaði neyslu og lagði fyrir.