139. löggjafarþing — 30. fundur,  17. nóv. 2010.

fjölmiðlar.

198. mál
[18:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum að nýju frumvarp til laga um fjölmiðla. Eins og hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra hefur sagt er það að hluta til breytt frá því frumvarpi sem lagt var fram 4. mars sl. en hlaut ekki afgreiðslu á síðasta þingi.

Sjálfsagt verður ekki um það deilt að skynsamlegt er að setja samræmda rammalöggjöf um starfsemi fjölmiðla. Markmiðið hlýtur þá að vera að styrkja starfsemi fjölmiðla, efla frjálsa og óháða fjölmiðlun og auðvelda almenningi aðgang að upplýsingum og fjölmiðlum almennt.

Ég tek heils hugar undir þau meginmarkmið sem fram koma í markmiðsgreininni, 1. gr., þar sem segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að tjáningarfrelsi, rétti til upplýsinga, fjölmiðlalæsi, fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlun sem og að efla vernd neytenda á þeim vettvangi. Markmið laganna er jafnframt að koma á samræmdri löggjöf á vettvangi fjölmiðlunar óháð því miðlunarformi sem er notað.“

Þessu ber að fagna, virðulegur forseti, en það er hins vegar dálítið sérstakt, og var jafnsérstakt í frumvarpi til laga um fjölmiðla sem lagt var fram í mars á árinu 2010, að ekkert er tekið á Ríkisútvarpinu, einum stærsta fjölmiðli landsins. Ekki er tekin afstaða til þess hvernig Ríkisútvarpið eigi að vera sem fjölmiðill. Ekki er tekið tillit til þess sem Samkeppniseftirlitið hefur margsinnis farið fram á, að Ríkisútvarpið, sem er á auglýsingamarkaði, aðgreini í það minnsta í fjárhag sínum í hvað þau gjöld sem skattborgarar greiða til þess fara og í hvað auglýsingatekjur renna. Því hefur ekki verið fylgt eftir. Það er dapurlegt að engin tilraun er gerð til þess, í þessu annars ágæta frumvarpi, að taka Ríkisútvarpið á nokkurn hátt fyrir. Það er, eins og ég segi, enginn aðskilnaður fyrir hendi hjá Ríkisútvarpinu sem kemur í veg fyrir að opinbert fé, skattpeningar, séu nýttir til að niðurgreiða auglýsingastarfsemi en þar eiga fjölmiðlar í samkeppni. Þeir keppa á auglýsingamarkaði og þar nýtur Ríkisútvarpið ákveðinnar sérstöðu sem aðrir fjölmiðlar njóta ekki.

Í umræðum um frumvarpið hefur margoft verið talað um að verið sé að uppfylla ýmsar reglugerðir frá Evrópusambandinu og EES. Ég leyfi mér að benda á að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sérstaklega bent á að undirboð fyrirtækja, sem veita útvarpsþjónustu í almannaþágu, geti ekki samræmst hlutverki þeirra og mundi undir öllum kringumstæðum hafa áhrif á viðskiptakjör á markaði og samkeppni sem færi gegn almannahagsmunum. Ég skora því á hv. menntamálanefnd, hvar ég á sæti sjálf, að skoða ríkisfjölmiðilinn og taka Ríkisútvarpið ohf. inn í frumvarpið. Það er óásættanlegt í mínum huga að vera hér með frumvarp til laga um fjölmiðla án þess að yfir höfuð sé minnst á Ríkisútvarpið.

Ekki ætla ég að eyða mörgum orðum í skilgreiningarnar í 2. gr., þær hafa svo sem ekki tekið neinum breytingum frá því sem áður var. Það er verkefni ákveðinna íslenskufræðinga að fara yfir það og reyna að gera þetta þjálla í munni og nýta mörg af þeim gömlu góðu orðum sem við eigum og geta verið ágæt.

Ég ætla að taka fyrir örstutt III. kaflann, sem er stjórnsýslan. Fallið hefur verið frá Fjölmiðlastofu svokallaðri og fjölmiðlanefnd sett í staðinn. Ég get samt ekki séð að í III. kafla sé mikil breyting á verksviði fjölmiðlanefndar, hún getur ráðið sér framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn til að annast í umboði sínu daglega framkvæmd og stjórnun þeirra verkefna sem nefndinni eru falin samkvæmt lögum þessum. Mér sýnist að ekki sé mikil breyting á þessari stjórnsýslu, Fjölmiðlastofa er fallin út en fjölmiðlanefnd komin í staðinn sem á að ráða til sín starfsfólk á nákvæmlega sama hátt og Fjölmiðlastofa gat áður gert. Ekki er lengur verið að tala um stofnun heldur nefnd sem ræður til sín starfsfólk til að fylgja lögum eftir. Þetta kann að verða ódýrara en enn ein eftirlitsstofnunin og verðum við að sjá hvað verður.

Fjölmiðlanefnd hefur yfir að ráða sömu tækjum og tólum og Fjölmiðlastofa hefði annars haft hefði hún verið sett á laggirnar og ákvörðun fjölmiðlanefndar, samkvæmt lögum þessum, verður ekki skotið til annarra stjórnvalda. Það sama átti við um Fjölmiðlastofu. Sá fjölmiðlaþjónustuveitandi, þetta er nýtt orð yfir þann sem á eða rekur fjölmiðil, kalli eitthvað á eftirlit og harkalega ákvörðun fjölmiðlanefndar getur hann ekki sent úrskurð nefndarinnar til neins annars, hann verður að fara með málið fyrir dómstóla. Það segir sig sjálft að þá er fjölmiðillinn dauður. Miðað við það hve hægt gengur í dómskerfinu mun enginn fjölmiðill bíða eftir því, ef hann er sviptur réttindum, að fara með málið fyrir dómstóla og klára það. Þetta er öfgakennt dæmi en það getur engu að síður komið upp.

Mig langar líka aðeins að velta upp starfssviði fjölmiðlanefndar og eftirlitshlutverki hennar, það stangast á, að mínu mati. Ég get ekki séð við snöggan yfirlestur á frumvarpinu að því hafi verið breytt. Ég tel að eftirlitshlutverk fjölmiðlanefndar, eins og í fyrra frumvarpinu, skarist á við ákvæði laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Það hlutverk er falið Neytendastofu og þar mun valdsvið fjölmiðlanefndar og Neytendastofu skarast. Við þekkjum það í þessu annars ágæta landi að óskýr valdmörk skapa frekar vandamál en að þau leysi úr þeim svo að ég tel rétt að þessir þættir verði skoðaðir.

Þegar talað er um að fjölmiðlanefnd eigi að veita leyfið þarf hún að sækja um tíðni til Póst- og fjarskiptastofnunar og þar geta hlutverk skarast. Ég velti því upp hvort ekki sé skynsamlegra að binda reglur um hljóð- og myndmiðla samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins í lög með breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, frekar en að setja það í rammalög um fjölmiðla. Þetta mun hv. menntamálanefnd væntanlega fara yfir.

Það er margt ágætt í frumvarpinu. Þó að margt sé þess eðlis að ég sé því ekki sammála vil ég þó halda því til haga að margt er gott í því.

Eins og áður tel ég að síðasta málsgreinin í 26. gr. og 27. gr., sem er bann við hatursáróðri, skarist. Gæti reynst erfitt að vega og meta hvort er hvað þegar talað er um fjölmiðil sem hefur þann yfirlýsta tilgang að beita sér fyrir tilteknum málstað og þarf ekki að ræða málstað annarra eða ólíkar skoðanir. Það getur verið mjótt á munum þar og þess sem getið er í 27. gr. og hugsanlega erfitt að skilja þar á milli.

Í 29. gr., um tal og texta á íslensku, segir, með leyfi forseta:

„Fjölmiðlaþjónustuveitendur skulu eftir því sem við á stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu.“

Ég hefði kosið að þarna hefði komið inn það sem bent var á í umræðunni, að þeir setji sér málstefnu. Það verður að segjast eins og er að tilfinning fyrir tungumáli, ég leyfi mér að taka mér í munn orð frú Vigdísar Finnbogadóttur þegar hún sagði: Það er ekki hægt að gúgla innri málkennd. Það er alveg ljóst að margur fjölmiðlamaðurinn þarf með einhverjum hætti að efla sína innri málkennd. Ég tek bara dæmi úr þessu dásamlega tungumáli okkar, sem er ríkara af sagnorðum en flest önnur tungumál, að einkum eru þeir sérkennilegir margir íþróttafréttamennirnir. Segjum að verið sé að tala um aukaspyrnu. Þá eru knattspyrnumenn allt í einu farnir að „framkvæma spyrnuna“ í staðinn fyrir einfaldlega „að spyrna“. Það eru ótal dæmi í þá veru sem eru ekki eðlileg íslenskri tungu og því væri kannski nauðsynlegt að setja inn að menn settu sér málstefnu og færu í saumana á því með hvaða hætti fjölmiðlamenn, margir hverjir, ræða málin og hvernig þeir hægt og bítandi ná að breyta gerð tungumálsins vegna þeirra áhrifa sem fjölmiðlar almennt hafa.

Ég fagna 30. gr., virðulegur forseti, um aðgengi sjón- og heyrnarskertra að myndmiðlunarefni, það er þarft. Ég mun af heilum hug taka þátt í vinnslu þessa fjölmiðlafrumvarps og vænti þess að innan hv. menntamálanefndar fari fram málefnaleg umræða og menn verði tilbúnir til að skoða fleiri þætti en hér eru.